140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eitthvað hefur hv. þm. Bjarni Benediktsson misskilið ræðu mína. Ég er ekki í ágreiningi við hann eða aðra um að ákæruvaldið liggi hjá Alþingi. Okkur greinir á um að hvort ákæruvaldið hafi heimild til að taka þessa ákvörðun með þeim hætti sem þingmaðurinn leggur til að verði gert. Á þessu er grundvallarmunur.

Úr því að verið er að fjalla um það þegar menn lögðu þetta frumvarp fram þá er ég hér með beina tilvitnun í flutningsræðu dr. Bjarna Benediktssonar sem var ágæt. Hann segir 18. október 1962, með leyfi forseta:

„…varð það úr, að ég óskaði þess, að Ólafur, sem eins og kunnugt er er ágætur sérfræðingur einmitt í þessum efnum, tæki að sér að semja nýtt frumvarp um landsdóm. Hann lauk því starfi á sl. sumri, og fékk dómsmálaráðherra frumvarp hans þá til athugunar, og er það nú lagt hér fram óbreytt eins og hann gekk frá því ásamt mjög ítarlegri (Forseti hringir.) og skilmerkilegri greinargerð sem því fylgdi.“

Þar er tekið fram að málið sé úr höndum þingsins.