140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að lesa upp úr nefndarálitinu. Allt er gott sem þar sagði.

Það sem ég legg áherslu á er að hver þingmaður fyrir sig á hlutdeild í ákæruvaldi þingsins. Við erum 63 sem förum saman með þetta ákæruvald. Við þurfum að komast sameiginlega að niðurstöðu um hvort tilefni sé til þess að afturkalla ákæru eða ekki. Menn geta haft mismunandi skoðanir og mismunandi rök fyrir þeirri skoðun að það eigi að afturkalla ákæru. Ég hygg til dæmis að það sé nokkur munur á afstöðu þeirra sem annars vegar voru andvígir ákærunni allt frá upphafi og þeirra sem lýst hafa því yfir að tiltekin atvik eða tilteknar aðstæður geri það að verkum að þeir hafi skipt um skoðun.

Ég mundi sjálfur, bara svo dæmi sé tekið, rökstyðja afstöðu mína til afturköllunar ákæru með allt öðrum hætti en hæstv. innanríkisráðherra sem hefur gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í ítarlegu máli. Við komumst engu að síður að sömu niðurstöðu. Ég er ekki að setja mig í dómarasæti um það að hans ástæður séu málefnalegri eða ómálefnalegri en mínar.