140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hver þingmaður verði að svara fyrir sig hvort sú breyting sem varð á málinu hér 28. september 2010 í atkvæðagreiðslu hafi áhrif á það mat þeirra hvort rétt sé að halda við þessa ákæru eða ekki. Ég held að það hafi verið umhugsunarefni hvers vegna tillagan var brotin upp í fjóra mismunandi liði og atkvæðagreiðsla fór fram um það með þeim hætti sem gert var hér við lok málsmeðferðarinnar í september 2010. Það var ekki ljóst með neinum fyrirvara hvernig það stóð. Ég hygg að margir hafi verið þeirrar skoðunar að það væri eðlilegra að láta fara fram atkvæðagreiðslu um tillöguna í heild. (Gripið fram í.)

Ég ætla ekki að fara nánar út í það. Það sem við erum að benda á er að það eru margir mismunandi þættir sem geta ráðið því að mat þingmanna breytist gagnvart því hvort það sé líklegt að þetta sakamál leiði til sakfellingar eða ekki. Því verður hver þingmaður að svara fyrir sig.

Ég hygg ekki að forseti þingsins hafi gert mistök í atkvæðagreiðslunni, ég held að hún hafi farið fram eftir því sem lagt var upp með. Niðurstaðan úr þessum málum öllum getur haft áhrif á það huglæga mat hvers þingmanns fyrir sig hvort það sé rétt að halda sig við ákæruna eða ekki. Ég hygg að þingmenn verði að standa frammi fyrir þeirri efnislegu spurningu (Forseti hringir.) hér í þingsal hvort þeir telji rétt að halda við (Forseti hringir.) ákæruna á hendur Geir H. Haarde eða ekki. Út á það gengur auðvitað þetta mál.