140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:49]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum sammála um að hin pólitíska ábyrgð á hruninu liggur víða. Við vorum líka sammála að því leyti að við greiddum atkvæði á nákvæmlega sama hátt 28. september 2010, ég og hv. þingmaður. Ég verð að segja það fyrir mig að ég hlýddi leiðbeiningum og tel að ég hafi á tiltekinn hátt lotið forsjá meiri hluta þingmannanefndarinnar og taldi að þar hafi verið unnið gríðarlega gott verk. Þetta var vissulega mjög erfitt verkefni. Ég bar fullt traust til þingmannanna sem þar sátu. Ég fylgdi niðurstöðum nefndarinnar og það gerðu allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við greiddum atkvæði öll á sama hátt samkvæmt tillögu meiri hlutans.

Ég verð þess vegna að endurtaka það sem ég sagði áðan að ég minnist þess ekki að í þeim umræðum hafi hv. þingmaður eða aðrir talað um það sem nú er orðið eitthvert aðalatriði, um fjóra eða engan. Þvert á móti sagði formaður nefndarinnar, hv. þm. Atli Gíslason: Fjórir, einn eða enginn, og það er það eina sem ég minnist að hafi verið fjallað um á þennan hátt.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að við þurfum að hafa aðrar leiðir til að kalla menn til pólitískrar ábyrgðar en gömlu lögin um landsdóm en ég vil spyrja hv. þingmann að lokum: Telur hann að við hefðum átt að breyta þeim í miðjum klíðum? Ég held að við séum sammála um að þau séu gölluð að mörgu leyti, en hefði nú ekki verið fullgróft að fara að grípa inn í þau í kjölfar hrunsins og breyta lagarammanum um þessa hluti?