140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nota svo stórt orð að segja að það hefði verið galið (ÁI: Já.) að fara að breyta lögunum í því ferli. Ég fór hins vegar yfir það að það var mat mitt og okkar í þingmannanefndinni að lögin stæðu, að þau væru nothæf eins og þau væru og í fullu gildi en að laga og skerpa þyrfti á ýmsum ákvæðum í þeim, (ÁI: Já.) varðandi t.d. ábyrgð ráðherranna.

Mig langar aðeins að bregðast við hugmyndunum um að ákæra fjóra eða engan eða að ákæra fjóra, einn eða engan. Í mínum huga hefur alltaf verið ljóst að ákveðinn hópur ráðherra bar klárlega mikla pólitíska ábyrgð á þeim tíma þegar hrunið varð en þeir voru ekki allir ákærðir. Ég hefði kosið ef við hefðum náð þeirri niðurstöðu að allir hefðu viðurkennt að mistök hefðu orðið og að menn hefðu gert eitthvað af sér sem þyrfti að skoða. Ef allir hefðu orðið sammála um það grundvallaratriði hefðum við hugsanlega geta orðið sammála um hvernig við ætluðum að taka á því. Ætlum við að segja að þeir ráðherrar sem höfðu með efnahagsmál að gera — og þá undanskil ég ekki suma núverandi ráðherra sem þá sátu líka í ríkisstjórn, til dæmis núverandi hæstv. forsætisráðherra sem þá var hæstv. félagsmálaráðherra. Hún tók á ákveðnum þáttum í skýrslunni þar sem fjallað var um bréf til seðlabankastjóra Norðurlandanna. Það má nefna fleiri, en um það náðum við ekki samkomulagi. Það er mat mitt að það sé rangt, ósanngjarnt og óréttlátt að segja að einn maður (Forseti hringir.) eigi að fara fyrir landsdóm og að engir aðrir beri neina pólitíska ábyrgð eða nokkra ábyrgð yfirleitt á hlutunum.