140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að viðurkenna enn og aftur að í reynd er enginn tilbúinn til að viðurkenna mistök eða ábyrgð á því efnahagslega hruni sem hér varð. Í rannsóknarskýrslu Alþingis eru dæmin tínd til þar sem allir sem til voru kallaðir fríuðu sjálfan sig, án þess kannski að benda á einhverja aðra, ég segi það ekki. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu síðasta hv. þingmanns og ég átta mig í raun ekki á þeim sinnaskiptum sem hann lýsti.

Ég hlýt að benda á að sinnaskipti sem þessi sem ekki eru betur rökstudd en þetta, eru af þeim sem skipa minni hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar taldar efnislegar ástæður í málinu. Þess vegna hlustaði ég mjög grannt eftir því hvernig hv. þingmaður rökstuddi þau sinnaskipti sem hann lýsti. Ég verð að segja alveg eins og er að það var ekki mjög efnislegur rökstuðningur, það voru ekki efnislegar ástæður að hlusta á.

Frú forseti. Þetta mál sem við ræðum í síðari umræðu bar að með mjög sérstökum hætti á aðventunni. Korteri fyrir jól barst um ganga að á ferð væri tillaga af þessum toga og fyrirhugað væri að saksóknarnefnd Alþingis fengi rétt fyrir siðasakir að kíkja aðeins á hana en hún mundi síðan ganga til atkvæða fyrir jólin eða degi síðar, og fullyrt að fyrir henni væri skýr meiri hluti. Ég vil segja að sem betur fer var komið í veg fyrir þau vinnubrögð og málið var tekið formlega á dagskrá þingsins 20. janúar sl. að afloknu jólaleyfi. Í þeirri umræðu var einkum tekist á um hvort Alþingi hefði heimild til að grípa inn í málið á því stigi sem það þá var og er. Það hafði verið tekið til efnislegrar meðferðar fyrir landsdómi, úrskurðað hafði verið um frávísun málsins í heild eða einstaka þætti, saksóknari hafði verið valinn og löglega kjörinn að mati landsdóms, búið var að úrskurða að það hefði verið lögmætt að þingið byggði málshöfðun á skýrslu rannsóknarnefndar þingsins og einnig að refsiheimildir sem ákært væri fyrir væru nægilega skýrar til að ákærði gæti haldið uppi vörnum o.s.frv.

Tekist var á um þetta og við vorum býsna mörg sem töldum að það væri ekki rétt að Alþingi hefði til þess heimildir að grípa inn í á þessum tímapunkti. Málið væri úr höndum þingsins þegar búið væri að velja saksóknara og ég tala ekki um þegar landsdómur var tekinn til starfa. Við byggðum þar á niðurstöðum og fræðigreinum viðurkenndra fræðimanna á sviði stjórnskipunarréttar, þeirra einstaklinga sem hafa skrifað kennslubækur og túlkað landsdómslög, stjórnskipun Íslands alveg frá því að við fengum fyrstu stjórnarskrána fyrir aldamótin 1900 eða á öndverðri 19. öld og nýja stjórnarskrá 1944 og breytingar síðan þá. Þessir fræðimenn eru tilgreindir í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og í góðu séráliti hv. þm. Magnúsar Norðdahls, 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í þessum álitum er að finna upplýsingar um þessa fræðimenn, hverjir þeir voru og hvað þeir höfðu til málanna að leggja.

Það bar til um þessar mundir segir í helgri bók og það bar vissulega til um þessar mundir eða um svipað leyti að fram komu nýjar kenningar í fjölmiðlum, nýjar kenningar yngri manna sem enn þá hafa ekki skrifað fræðiritgerðir um þessi mál, en töldu öndvert við hina eldri fræðimenn að það væri rétt að Alþingi gæti farið inn í þetta mál og afturkallað ályktun sína, fellt hana úr gildi eins og sagt er, afturkallað ákæruna. Fyrir nefndina komu einir 13 fræðimenn á tíu fundi. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. formanni nefndarinnar Valgerði Bjarnadóttur kærlega fyrir hvernig hún hefur stýrt þessu máli á þessum tíu fundum. Þetta var stórt og mikið mál og ég vil meina að vinna nefndarinnar hafi verið mjög góð. Til að gera langa sögu stutta voru ekki allir þeir fræðimenn sem komu fyrir nefndina sammála, en niðurstaða margra þeirra en alls ekki allra var sú að Alþingi, sem fer með ákæruvald í þessum efnum þó að það feli að sjálfsögðu saksóknara að fara með það, gæti afturkallað ákæru, það væri eðlilegt. Í álitinu kemur fram að meiri hluti nefndarinnar tekur undir að ætíð þurfi að vera hægt að hætta við málssókn. Þær ályktanir sem við drógum af umfjöllun fyrir nefndinni koma fram á bls. 2 í nefndarálitinu, eins og ég sagði áðan í andsvari, en þar segjum við að með því að ákæruvaldið sé í höndum Alþingis hafi Alþingi formlegt vald til að afturkalla ákæru á hendur ráðherra fyrir landsdómi. Við teljum það hins vegar sjálfstætt álitaefni hvort og á hvaða forsendum Alþingi geti nýtt það vald.

Þegar greidd voru atkvæði um frávísunartillöguna fyrra sinni 20. janúar sl. greiddu flestir atkvæði á þeim grunni sem ég lýsti hér, hvort það væri rétt eða rangt að Alþingi ætti að ganga inn í málið. Alþingi tók í reynd afstöðu til þess álitaefnis með því að frávísunartillagan var felld og Alþingi ákvað að taka málið til efnislegrar meðferðar og vísaði því til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar var ítarlega fjallað um þessa þætti, eins og ég sagði áðan, en líka um aðra þætti eins og kemur fram í nefndaráliti okkar. Það sem skiptir kannski einna mestu máli í mínum huga í þessu sambandi er sú staðreynd að 1. janúar 2009 var ákveðið með lagabreytingum, með breytingum á lögum um landsdóm, að lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, skyldu vera landsdómslögunum til fyllingar eftir því sem við gæti átt. Menn voru á þeim tíma sammála um að það væri kannski ekki síst til þess að tryggja réttláta málsmeðferð og réttindi sakborninga fyrir dómi. Það er því, frú forseti, mjög mikilvægt að líta til þeirra ástæðna sem þar eru gefnar fyrir afturköllun ákæru vegna þess að það er alveg laukrétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan, það stendur ekkert um það í landsdómslögum hvernig standa eigi að slíku. Þess vegna eru þessi lög ákveðin vera til fyllingar og þess vegna litum við að sjálfsögðu sérstaklega til þeirra. Við erum sammála um það, meiri hluti og minni hluti í nefndinni, að efnislegar ástæður og efnisleg sjónarmið þurfa að vera fyrir því að afturköllun sé möguleg, sé eðlileg og gerleg. Okkur greinir hins vegar á um hver eru efnisleg atriði.

Ég verð að segja, frú forseti, að við reyndum hvað við gátum að fá upplýsingar um hvað það væri sem raunverulega hefði breyst sem gæti leitt til afturköllunar, hvaða efnislegu sjónarmið og ástæður réttlættu slíkt. Við spurðum auðvitað þá sem fara með málið fyrir hönd Alþingis, sem eru saksóknari og varasaksóknari. Þau komu á fund nefndarinnar og það er alveg ljóst og kemur skýrt fram í álitinu að saksóknari og varasaksóknari tóku fram að ekkert hefði komið fram við rannsókn málsins sem leiddi til þess að efnislegar ástæður væru til að kalla það til baka. Þetta teljum við forsendubrest fyrir þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Okkar niðurstaða er sú að við leggjum til að tillögunni verði þess vegna vísað frá. Ég vil taka fram að ég tel það rökrétta niðurstöðu og efnislega meðferð á innihaldi tillögunnar að leggja til að henni verði vísað frá. En við gerum þá varatillögu, frú forseti, að ella verði hún felld.

Mig langar til að nefna eitt atriði sem var til umræðu fyrr í dag sem varðar gögnin, hvernig og hvaða gögn lokist inni verði þetta mál fellt niður á þessum tímapunkti. Ég vil bara segja að það er alveg ljóst að gögn sem aflað hefur verið sérstaklega vegna og við rekstur málsins eru eðli máls samkvæmt undanþegin upplýsingalögunum. Þeirra hefur verið aflað vegna dómsmáls og þau falla ekki undir upplýsingalög. Það þýðir að aðgangur getur verið heimill að þeim eftir 30 ár eða eftir 80 ár eftir atvikum, en eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir rakti áðan er forsendan auðvitað sú, þegar menn kalla eftir upplýsingum af þeim toga á grunni upplýsingalaganna, að þeir viti um hvað þeir eru að biðja og það geti menn ekki vitað verði málinu lokað á þessum tíma.

Við búum við lagaumhverfi á þessu sviði sem að mörgu leyti er gallað og við Íslendingar vorum gripin í bólinu í hruninu. Ég vil kannski segja að sem betur fer biðum við ekki eftir hruni sem þessu en mikið lifandis skelfing voru mörg lagaákvæði og margar reglur handónýt til að takast á við afleiðingar hrunsins. Landsdómslögin gömlu eru gölluð. Þau eru ekki handónýt. Niðurstaðan var sú, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði áðan, að þau væru vel tæk. Ég get tekið undir með honum að það hefði verið algerlega galið að fara að breyta þeim í miðjum klíðum. En við ætlum okkur að breyta þeim eins og svo mörgu öðru í okkar stjórnskipan og til þess höfum við tækifæri þegar hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lokið umfjöllun sinni um þetta mál sem við ræðum í seinni umræðu. Þá getum við farið að snúa okkur að því að halda áfram undirbúningi við nýja stjórnarskrá og þar með getum við væntanlega breytt þeim gölluðu lagaákvæðum sem við búum við, ekki bara á því sviði sem varðar ráðherraábyrgð heldur á svo mörgum öðrum sviðum.

Ég styð frávísun á þessu máli og ég tel að það sé vel rökstudd og efnisleg niðurstaða.