140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að staldra við eitt atriði í ræðu hv. þingmanns Álfheiðar Ingadóttur, það er að rök séu fyrir frávísun. Ég held að við hv. þingmaður náum ekki saman um hvort ástæða sé til að samþykkja tillöguna sjálfa eða fella hana, en það hefur bögglast dálítið fyrir mér hvers vegna lögð er fram frávísunartillaga við þingmál sem þegar hefur verið borin fram frávísunartillaga við með sambærilegum rökstuðningi, reyndar í styttra máli en núna. Ég hef fyrir framan mig tillögu til rökstuddrar dagskrár frá 20. janúar þar sem er byggt, eftir því sem ég best get séð, á nákvæmlega sömu forsendum og frávísunartillagan er lögð fram núna. Þetta er í mínum huga ekkert aðalatriði í málinu en mér finnst þetta skrýtið.