140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það var ekki bein tillaga rannsóknarnefndar Alþingis að fjórir fyrrverandi ráðherrar skyldu kærðir. Það sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var að einkum þrír ráðherrar en ekki fjórir bæru ábyrgð og ef ég man fjórir embættismenn. Þingmannanefndin tók niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis til efnislegrar umfjöllunar og komst að þeirri niðurstöðu að kæra ætti fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir hugsanleg brot á lögum um ráðherraábyrgð, og í úrskurði landsdóms frá því í haust kemur fram það mat dómsins að það hafi verið lögmætt að þingið byggði ályktun sína um málshöfðun á skýrslu rannsóknarnefndar þingsins.

Mig langar til að ítreka það sem ég sagði um frávísunartillöguna 20. janúar. Hún var felld. Hún var einfaldlega felld af því að menn kölluðu eftir efnislegri umfjöllun, og hana fengu menn. Niðurstaða hennar liggur fyrir og er til umræðu í dag og það er mat meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að á grunni þeirrar efnislegu umfjöllunar sem fram hefur farið og kallað var eftir sé ekki efni til annars en að vísa tillögunni frá.

Vegna þess sem hv. þingmaður sagði að það kæmi hvergi fram í tillögunni sem slíkri en það hefði að vísu verið rætt í þingsal, vil ég bara nefna, svo það sé á hreinu, að lögskýringargögn þegar rituðum heimildum í þingskjölum sleppir eru ræður þingmanna. Það er því rétt sem ég sagði áðan að menn (Forseti hringir.) tóku greinilega afstöðu í atkvæðagreiðslu á grunni þeirrar spurningar hvort Alþingi hefði heimildir eða ekki (Forseti hringir.) til að grípa inn í málið.