140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:17]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og er ein af þeim sem rita undir álit meiri hlutans. Ég var reyndar á móti því að málið yrði tekið úr nefnd. Ég var líka á móti því að málið færi til nefndar því að mér finnst það fáránlegt. Þetta mál gerir mig reiða. Þegar Alþingi ályktar eitthvað þá á það að standa. Það er alveg sama hvað það er, nema efnislegar forsendur breyti málinu og það hefur ekki verið í þessu máli. Við í nefndinni, þetta er mjög mikilvæg nefnd að mínu mati, höfum eytt fáránlega miklum tíma í þetta. Þetta hefur tafið aðra vinnu nefndarinnar, miklu mikilvægari vinnu. Þetta hefur tafið þingið. Heimilin bíða eftir úrlausnum á sínum málum og við erum að ræða þetta. Mér líður eins og ég sé persóna í fáránlegri skáldsögu.

Í gær birtist frétt á fréttasíðu RÚV og mig langar að lesa hana, með leyfi forseta, því að hún fangar að mínu mati nákvæmlega þá stöðu sem komin er upp í dag. Fréttin ber yfirskriftina: „Yfirstéttin er frekari en almúginn!“

„Því hærra sem menn eru settir í samfélaginu, því eigingjarnari eru þeir, ágjarnari, siðlausari og líklegri til að hafa rangt við, brjóta lög og aðrar leikreglur. Þetta hefur margan grunað, en nú er það vísindalega sannað. Sönnunin var unnin af Paul Pitt, prófessor í félagssálfræði.

Pitt og félagar hans í Berkeley-háskóla í Kaliforníu standa á því fastar en fótunum að auðugt fólk og aðrir sem njóta velgengni og forréttinda hafi meiri tilhneigingu en minni háttar fólk til að segja ósatt, svindla, svína í umferðinni og yfirleitt hegða sér andfélagslega. Þeir sem yfir aðra séu settir telji eðlilegt að önnur siðalögmál gildi um sig, þeir eigi einnig betra en sauðsvartur almúginn með að losa sig úr klípu fari illa, hafi til að mynda efni á úrræðagóðum lögmönnum.“

Þetta finnst mér akkúrat staðan hér í dag. Bara það að Alþingi Íslendinga sé að fjalla um þetta mál lýsir þessu í hnotskurn.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis, í 8. bindi, var hörð gagnrýni á þá þröngu lagahyggju sem hefur tíðkast hér á landi. Ef eitthvað er ekki beinlínis bannað þá er bara allt í lagi að gera það. Hvert leiddi þetta okkur? Hvar erum við nú? Mér finnst þetta fáránlegt, mér finnst þetta súrrealískt. Ef það myndast nýr meiri hluti í þinginu í atkvæðagreiðslunni á morgun er ég ekki viss um hvort ég treysti mér til að starfa hér, þannig að það sé sagt. Ef önnur lög eiga að gilda um yfirstéttina en almúgann þá er ég ekki viss um að þetta sé samfélag sem ég vil tilheyra.