140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér í síðari umr. um tillögu sem ég mælti fyrir um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það er alkunna að mjög var deilt um það hér við fyrri umr. þessa máls hvort málið væri í fyrsta lagi þingtækt og komist að niðurstöðu um það. Í annan stað var um það deilt hvort rétt væri að málið færi til meðferðar í nefnd. Það var kosið um það og málið fór til nefndar. Svo var lengi vel óljóst hvort meiri hluti væri fyrir því í nefndinni að málið kæmi aftur til efnislegrar meðferðar í þinginu til síðari umr. en meiri hlutinn komst að þeirri niðurstöðu fyrir rest að afgreiða málið út úr nefnd og ég vil nota þetta tækifæri til að fagna því. Ég tel að hitt, að láta málið daga uppi í nefndinni vegna þess að ekki var meiri hluti fyrir stuðningi við málið, hefði verið mikið glapræði að láta gerast. Kemur það bæði til af efni málsins og þar sem saksóknari Alþingis hafði sérstaklega kallað eftir því að niðurstaða fengist í málið. Í þessu efni er nærtækt líka að vísa til þess að meiri hluti þingsins hafði óskað eftir efnislegri meðferð þess. Af þessari ástæðu er ástæða til að fagna því að málið sé aftur komið hingað inn til afgreiðslu þingsins.

Hér hefur farið fram nokkur umræða í dag um ólíkar hliðar málsins og sitt sýnist hverjum, það er óhætt að segja það. Hér liggja fyrir þrjú nefndarálit úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég ætla að nota ræðutíma minn til þess að fjalla aðeins um þau sjónarmið sem hafa verið reifuð upp úr nefndarálitum og í ræðum hér í dag.

Það er fyrst til að taka að í nefndinni hefur verið fjallað sérstaklega um hvort þingið sé til þess bært að taka þessa ákvörðun. Það ríkir ekki einhugur um það í þinginu en engu að síður er það meginniðurstaðan út úr nefndinni að þingið geti tekið þá ákvörðun. Það var skoðun mín frá upphafi að þingið væri til þess bært að taka ákvörðunina og má svo sem skiptast á skoðunum um það hér á hvaða forsendum það verði á endanum gert, en eins og segir í nefndaráliti frá 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal skrifa undir, verður það þannig á endanum að svo kann að fara að þingmenn geri það hver á sinni forsendu.

Í umræðum um þetta mál hefur mjög gjarnan verið vísað til samlíkingar við önnur opinber sakamál. Það er ekki óeðlilegt vegna þess að lög um meðferð sakamála eru landsdóms- og ráðherraábyrgðarlögunum til fyllingar um málsmeðferðina og ýmis atriði. Það breytir því þó ekki að lögin um ráðherraábyrgð og landsdóm eru svo sérstök að ekki er hægt að gera þennan samanburð eða þennan jöfnuð í öllum atriðum. Þetta á alveg sérstaklega við um meðferð ákæruvaldsins. Í öllum venjulegum sakamálum er skýrt að ákæruvaldið hvílir að jafnaði hjá einum manni. Hann kemst á einhverjum tímapunkti að niðurstöðu um hvort tilefni sé til ákæru. Ekki er við því að búast að sá sami einstaklingur almennt séð komist að nýrri niðurstöðu um tilefni saksóknarinnar, enda er það meginregla að mál eru ekki höfðuð nema góðar líkur séu á sakfellingu að mati ákæranda máls. Ég hygg að hægt sé að fullyrða að ef það þykir tvísýnt með sakfellingu sé það meginregla við meðferð opinberra mála að ákæra væri ekki gefin út.

Í því máli sem við erum að fjalla um var það á hinn bóginn afar tvísýnt og í því máli sem við erum að fjalla um hvíldi ákæruvaldið ekki hjá einum manni heldur var það sameiginlega í höndum 63 þingmanna og það var mjótt á mununum, afar mjótt á mununum í því mikilvæga mati hvort hinn ákærði hefði framið lögbrot eða ekki. Það var stóra spurningin sem við þingmenn stóðum frammi fyrir á haustmánuðum 2010 þegar málið var hér til meðferðar síðast. Við höfum í millitíðinni séð á hvaða forsendum einstaka þingmenn, sem hafa tjáð sig um málið opinberlega, tóku ákvörðun. Við höfum til dæmis hlýtt á formann Vinstri grænna, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, greina frá því að það hafi verið sameiginleg niðurstaða þingflokksins — sameiginleg niðurstaða þingflokksins — að styðja niðurstöðu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um þetta mál sérstaklega. Það hafi verið sameiginleg niðurstaða þingflokksins.

Veltum því aðeins fyrir okkur hvort það geti talist málefnalegar ástæður í þeim skilningi sem málefnalegar ástæður hafa verið nefndar hér í umræðunni í dag. Eru það málefnalegar ástæður í sakamáli að standa saman um niðurstöðu þingmannanefndarinnar? Eru það málefnalegar ástæður? Er farið vel með mannréttindi sakbornings með því að taka pólitíska ákvörðun í málum eins og þessum? Ég held að það sé afar langt frá því. Ætli það hafi verið málefnalegar ástæður þegar einstaka þingmenn sögðu fyrir sitt leyti að allar forsendur hefðu brostið við það að einn sat uppi með alla sökina? Hjá þeim meiri hluta þingmanna sem myndaðist hér við atkvæðagreiðslu? Ef þingmenn lýsa því yfir, hver fyrir sitt leyti, að forsendur hafi brostið er komin rík ástæða til að taka málið til endurskoðunar, þá er komin rík ástæða til þess. Um þetta sjónarmið er fjallað í þingsályktunartillögu minni og ég hef gert grein fyrir henni hér á fyrri stigum.

Mig langar líka í þessu samhengi að vísa í fylgiskjölin sem fylgja nefndaráliti 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar er að finna í fyrsta lagi fylgiskjal I sem er grein frá Róbert R. Spanó. Í annan stað er fylgiskjal II sem er blaðagrein frá Stefáni Má Stefánssyni. Í þriðja lagi er fylgiskjal III, þar sem um er að ræða greinar frá Ragnari H. Hall. Í fjórða lagi er fylgiskjal IV sem er grein frá Valtý Sigurðssyni. Valtýr Sigurðsson fjallar í grein sinni einmitt um þetta atriði sem ég hef gert hér að umtalsefni. Í fylgiskjali IV segir, með leyfi forseta:

„Ein meginskylda ákæranda er að gæta að því að gefa ekki út ákæru telji hann það sem fram er komið ekki líklegt til sakfellis. Eftir að ákæra hefur verið gefin út ber ákæranda sömuleiðis að gæta að málsmeðferðarreglum. Komi í ljós vankantar þar á ber ákæranda að afturkalla ákæruna og fella málið niður. Í landsdómsmálinu liggja þessar heimildir og skyldur eftir því sem næst verður komist hjá Alþingi sem ákæranda. Ríkissaksóknari, sem fer með málið í þessu tilfelli, getur lagt til við Alþingi að fella niður einstaka þætti eða málið í heild en hann hefur, ólíkt því sem er t.d. í almennum sakamálum, ekki heimild til að gera slíkt sjálfur. Þarna er reginmunur á og umræður einstakra þingmanna um að Alþingi eigi ekki að hafa afskipti af ákæruvaldinu í þessu máli eru því á misskilningi byggðar ólíkt því sem var í máli níumenninganna.“

Ég tel að þetta sé sjónarmið sem við hljótum að hafa með í umræðu um valdheimildir þingsins og með hvaða hætti farið er með ákæruvaldið. Það er síðan í fylgiskjali II sem ég vil vísa í sérstaklega með hliðsjón af því sem ég áður sagði um hvernig afgreiðsla einstakra þingmanna byggðist að hluta til á samkomulagi úr þingflokkum. Þar vísa ég í fylgiskjal II, með leyfi forseta:

„Með því hins vegar að gefa Alþingi kost á að kjósa um hvort mál skyldi höfða á hendur hverjum og einum sakborninga var þessu faglega mati vikið til hliðar og fært í hendur einstakra þingmanna. Leiða má líkum að því að sú sérfræðiþekking sem þingmannanefndin hafði yfir að ráða hafi ekki verið fyrir hendi hjá sérhverjum þingmanni að sama skapi. Þetta á alveg sérstaklega við þar sem sakarefnið beindist að ýmsum meintum athafnaleysisbrotum. Einmitt í slíkum málum eru öll matsatriði um sekt eða sýknu sérstaklega vandasöm.

Af framansögðu má leiða líkum að því að umrædd málsmeðferð Alþingis hafi í þýðingarmiklum atriðum vikið frá almennum og viðurkenndum reglum um höfðun sakamála. Sé það rétt dregur það mjög úr trúverðugleika ákærunnar.“

Þetta vildi ég nefna í samhengi við umræðuna um að það sé eitthvað óeðlilegt við að þingið endurmeti afstöðu sína og það er nauðsynlegt í þeirri umræðu að hafa í huga að það er ekkert venjulegt við þetta mál, það er óvanalegt. Þetta er fyrsta málið sem höfðað er gegn ráðherra fyrir landsdómi, þetta er fyrsta málið, og það var mikið ógæfuskref að stíga það á sínum tíma. Það var svartur dagur í sögu þingsins þegar sú ákvörðun var tekin, að ekki sé rætt um undirmálin sem voru í gangi á þinginu til að kalla fram heppilega niðurstöðu séð frá sjónarhóli einstakra þingmanna eftir því hvar í flokki þeir sátu. (Gripið fram í: Hvaða mál var það?)

Sérstaklega ber að hafa í huga í þessu samhengi … (Gripið fram í.) gæti ég fengið frið fyrir hv. þm. Merði Árnasyni, forseti?

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Sérstaklega ber að hafa í huga í þessu samhengi að frá því að atkvæðagreiðslan fór fram á sínum tíma og meiri hlutinn sem myndaðist í henni var mjög naumur og hann fékkst með þessum hætti sem ég hef hér rakið, frá því að það gerðist hafa stigið fram einstakir þingmenn og lýst þeirri skoðun sinni að þetta hafi verið röng niðurstaða og þeir hafi skipt um skoðun. Ég lét þess getið þegar ég tefldi þingmálinu fram á sínum tíma að það væri komið fram af minni hálfu, ekki síst vegna þess að ég teldi að nýr meiri hluti hefði myndast á þinginu.

Þar til umræða fór fram um málið kom síðan enn betur í ljós að ég hafði rétt fyrir mér um þetta atriði. Það komu fleiri þingmenn en ég átti von á og stigu fram og lýstu efasemdum um að rétt hefði verið að höfða málið. Þetta er grundvallaratriði sem er ekki hægt að skauta fram hjá í umræðu um þetta mál, þ.e. þegar mat ákærandans sjálfs — í þessu tilfelli sameiginlegt mat 63 þingmanna — er það að rangt sé að höfða málið vegna þess að sakborningurinn hafi ekki gerst brotlegur við lög. Þá hljótum við að fara að huga að grundvallarmannréttindum, eins og þeim að enginn maður eigi að þurfa að svara til saka fyrir dómstólum nema meiri líkur séu taldar á sekt en sýknu. Það eru grundvallarmannréttindi. Mér finnst menn skauta býsna létt yfir slík grundvallarmannréttindi sem almenn sátt hefur þó ríkt um í þjóðfélaginu frá lýðveldisstofnun. Hvernig er hægt að horfa fram hjá þessu og bera fyrir sig hér einhver tæknileg atriði sem eru að hluta til byggð á einhverjum nýjum fræðikenningum, eins og til dæmis umræðan um að þingið geti ekki átt frumkvæðisrétt?

Ég vil taka fram að mér finnst umræðan hér í dag hafa að uppistöðu til verið málefnaleg. Ég vil segja til dæmis um málflutning hv. þm. Magnúsar Norðdahls að mér finnst hann hafa verið mjög öfgalaus. Hann hefur fært fram rök fyrir máli sínu þó að ég sé ekki sammála þeim, eins og til dæmis þetta með frumkvæðisréttinn, að hann sé ekki hjá þinginu. Ég finn engin almennileg rök fyrir því að sá sem fer með ákæruvaldið geti ekki átt frumkvæðið. Hvers vegna skyldu menn hafa smíðað lögin með þeim hætti? Og hvar hefur einhvern tímann í öllum þeim fræðum sem vísað hefur verið til í þessari umræðu orðið „frumkvæðisréttur“ komið fyrir? Hvergi nokkurs staðar. Það hefur hvergi verið rætt um meintan frumkvæðisrétt eða mikilvægi þess að hann hvíli hér eða þar, hvergi. Þvert á móti. Það sem við höfum nýjast sem réttarheimild til túlkunar á þessum atriðum er það sem fram kemur frá landsdómi og þar er alveg skýrt að saksóknari fer ekki með ákæruvaldið og getur engin áhrif haft á efni málsóknarinnar. Þetta fær mig til þess að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki einungis réttur þingsins að kalla ákæruna til baka, heldur sé það ótvírætt þannig að það geti byggt á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem hentar hvaða þingmanni sem er. Enda man ég ekki eftir sérstakri umræðu um það hér á sínum tíma að rökin sem menn tefldu fram fyrir því að ákæra í málinu þyrftu að vera byggð á einhverjum sérstökum málefnalegum rökum umfram það sem var þá í umræðunni. Það þurfti ekki að byggja á neinu öðru en mati á því hvort menn teldu lög hafa verið brotin. Það var umræðuefnið, það var aðalatriði málsins. Hvaða málefnalegu ástæður eru það aðrar en þær að það hvílir hjá eintökum þingmanni að meta það fyrir sitt leyti hvort lög hafi verið brotin. Það hefur frá upphafi verið aðalatriði þessa máls. Það er aðaltilefni þess að tillagan er komin fram að ég sé ekki annað en að það sé meiri hluti þingmanna sem telur ekki tilefni til ákæru.

Ég vil taka fram, vegna þess að ég vísaði til þess að einstaka þingmenn hefðu stigið fram og aðrir komið inn á Alþingi sem telja ekki tilefni til ákæru en töldu það ýmist áður eða hafa komið í stað þingmanna sem þá sátu á þingi sem varamenn, að ég kannast ekki við að nokkur einasti þingmaður, enginn, sem var þeirrar skoðunar í september 2010 að ekki væri tilefni til ákæru sé nú þeirrar skoðunar að það sé tilefni til ákæru, að hann hafi sannfærst í millitíðinni. Getur einhver bent mér á það? Ef svo er ekki þá liggur það fyrir, samkvæmt því sem fram hefur komið hjá hæstv. innanríkisráðherra og nokkrum öðrum þingmönnum, að meiri hlutinn fyrir ákærunni er fallinn, hann er hreinlega fallinn. Ákærandinn, sá sem óumdeilanlega fer með ákæruvaldið í þessu máli, er sem sagt kominn að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til ákæru og sakborningurinn sé þar af leiðandi ranglega dreginn fyrir landsdóm. Ætla menn að skauta fram hjá þessu atriði á einhverjum tæknilegum forsendum, að ekki séu tínd til nægilega vel einhver málefnaleg rök?

Ég hafna að sjálfsögðu því sem fram kemur í meirihlutaálitinu að engin málefnaleg rök fylgi þingsályktunartillögunni. Þvert á móti, þau eru tínd til í málinu sjálfu, það er getið um þau í áliti 2. minni hluta. Ég hef farið yfir þau hér á fyrri stigum þessa máls auk þess sem það er ekki í mínum höndum að tala fyrir öllum þeim ólíku sjónarmiðum sem kunna að búa að baki ákvörðun einstakra þingmanna. Það er nefnilega séreðli þessa máls að ákæruvaldið hvílir hjá 63 einstaklingum. Þannig er það. Þess vegna er svo mikilvægt að málið komist til atkvæðagreiðslu á morgun, þess vegna er svo mikilvægt að menn geri ekki þau mistök að ljúka málinu með því að taka það af dagskrá (Forseti hringir.) áður en til atkvæðagreiðslu kemur. (Forseti hringir.) Það væru dapurleg endalok þessa máls.