140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það væri full ástæða til að spyrja út í fjölmargt sem hv. þingmaður sagði í ræðustólnum en vegna þess að ekki er víst að flutningsmaður tillögunnar, sem er þessi hv. þingmaður, komi aftur í stólinn vil ég spyrja um eitt sem hann talaði ekki um af einhverjum ástæðum. Það er um gögn málsins. Verði honum að þeirri ósk sinni að meiri hluti hér hafi skipt um skoðun, hann lætur eins og þetta sé sama mál og áður var flutt, í september 2010, hvað verður þá um gögn málsins? Er það rétt staðhæfing í meirihlutaálitinu frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að gögnin verði, þau sem ný eru að minnsta kosti og ekki liggja frammi önnur, lokuð inni á Þjóðskjalasafni í 30 ár og í 80 ár? Telur þingmaðurinn, sem er lögfræðingur, eins og stundum kemur fram í máli hans, að það sé rétt niðurstaða? Telur þingmaðurinn það eðlilega niðurstöðu að þessi gögn lokist af á Þjóðskjalasafninu í allan þennan tíma? Telur hann að einhver gögn séu þarna sem almenningur ætti í raun að hafa aðgang að við það verk sem þetta mál er liður í, uppgjör við hrunið, uppgjör við nýfrjálshyggjuna og hrunið sem af henni hlaust og stjórn Sjálfstæðisflokksins, einkavinavæðingu Sjálfstæðisflokksins, sölu hans út og suður á bönkum, hagstjórn sem var fyrir neðan allar hellur, halla á viðskiptum við útlönd og þau ævintýri sem vinir Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins stunduðu í bankaviðskiptum og útrásinni?

Telur hann að hugsanlega séu gögn þarna fyrir hendi sem lokist af við tillögu hans? Ef svo er og honum er annt um þessi gögn, hvers vegna gerði hann þá ekki ráð fyrir því í þingsályktunartillögunni eða sérstöku frumvarpi sem flutt væri samhliða henni þegar hann lagði tillöguna fram á sínum tíma?