140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar um grundvallarmannréttindi er að ræða eins og þau sem við fjöllum um hér, að menn séu ekki ákærðir, sæti ekki ákæru, þurfi ekki að svara til saka fyrir dómstóli, nema að líkur séu á sakfellingu, tel ég að spurningin sem hv. þingmaður ber hér upp sé léttvæg í samanburðinum. Hvað verður um gögnin?

Það hefur enginn skortur verið á því að opna og upplýsa, gefa út skýrslur, fara í rannsóknir, fyrir liggur rúmlega 2.500 blaðsíðna skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og jafnframt liggur fyrir að þegar þingið tók ákvörðun um ákæru í þessu máli höfðu engin viðbótargögn komið til skjalanna. Engin sjálfstæð sakamálarannsókn hafði átt sér stað áður en Alþingi ákvað að ákæra. Hafi komið til viðbótargögn sem hv. þingmaður vill gjarnan að komi fram í dagsljósið kann það vel að vera og um meðferð þeirra fer samkvæmt lögum, en hvað um þau verður á endanum er fyrir mér mjög léttvægt, samanborið við þau grundvallarmannréttindi sem málið fjallar um. Farið verður með gögnin á grundvelli laga.

Aðalástæðan fyrir því að málið er komið fram er sú sem ég hef rakið hér og það sjónarmið mitt um að ekki hafi verið tilefni til ákæru. Þar er ég sammála hv. þingmanni og hæstv. forsætisráðherra, sem er samflokksmaður hv. þingmanns, þar sem hún sagði við fjölmiðla skömmu eftir að ákæran hafði verið ákveðin, með leyfi forseta:

„Mér þykir það auðvitað miður að Geir H. Haarde hafi verið ákærður og farið fyrir landsdóm. Mér þykir það mjög miður vegna þess að ég tel ekkert tilefni hafa verið til þess.“