140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það væri æskilegt að hv. þm. Bjarni Benediktsson vitnaði oftar í Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra. Ef ég má bæta við annarri athugasemd er það fyrir mér klárt, það er skoðun mín, sú afstaða sem ég byggði á á sínum tíma og ég geri það enn, að meiri líkur en minni væru til sakfellingar í þessu máli.

Það sem hér kemur hins vegar í ljós er að hv. þm. Bjarni Benediktsson vill ekki svara því hvað verði um gögnin, vill ekki svara því áliti sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur eftir þinglega meðferð málsins, það er rétt að hafa á hreinu þann frasa: Þingleg meðferð málsins hefur farið fram á fjölda funda og meðal annars tafið afgreiðslu stjórnarskrárinnar. Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur ekki gert sér grein fyrir því en vill ekki svara því hvað verður um gögnin. Honum þykir það léttvægt hvað verður um gögnin. Veit Bjarni Benediktsson hvaða gögn þetta eru? Það er alveg klárt að saksóknari hefur aflað töluverðra gagna, það vitum við. Eina gagnið sem hefur í raun komið fram er varnarskjal Geirs Haardes frá lögfræðingi hans og í því er meðal annars tekin sú stórmannlega afstaða að Geir Haarde sé saklaus vegna þess að helstu atburðir sem þessu máli viðkomi hafi farið fram í viðskiptaráðuneytinu, annar ráðherra hafi verið í því máli sem Geir Haarde sé talinn ábyrgur fyrir hér.

Hvað stendur í gögnunum? Veit Bjarni hvað stendur í gögnunum? Sú spurning hvílir á mörgum. Getur verið að í gögnunum sé eitthvað sem kemur við hinu fræga vafningsmáli sem Bjarni Benediktsson er flæktur í? Getur verið að Bjarni Benediktsson hafi látið Geir Haarde vita með einhverjum hætti hvernig hann blandaðist í það mál og hvers hann varð áskynja í því? Er það hugsanlegt að það sé þannig? Veit Bjarni af tölvupóstum, gögnum, skýrslum —

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmann að nefna þingmenn hér fullu nafni.)

Veit Bjarni Benediktsson, hv. þingmaður, af slíkum hlutum sem farið hafa til Geirs Haardes eða kunna að vera í þessum gagnapakka? Það hvílir mikil ábyrgð á hv. þingmanni, bæði sem þingmanni, sem stjórnmálaleiðtoga og líka sem (Forseti hringir.) fyrrverandi kaupsýslumanni.