140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þessa máls, það má öllum ljóst vera. Þær umræður sem fara nú fram í þinginu eru sögulegar þótt ekki sé nema vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem þessu ákvæði um landsdóm er beitt.

Sú tillaga sem nú liggur fyrir um að afturkalla ákæruna yfir fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde byggir á þeim grunni að það megi leiða að því rök með þann aðila sem fer með saksóknarvaldið, Alþingi, að breytingar hafi orðið á afstöðu hans hvað varðar það álitaefni hvort meiri líkur eða minni séu til þess að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði fundinn sekur. Tel ég það að mestu leyti óumdeilt þótt vissulega séu mismunandi skoðanir uppi í málinu og um það snýst þetta mál. Fjölmörg lagatæknileg atriði snúa að þessu máli og ég vil ekki gera lítið úr þeim því að þau skipta auðvitað miklu máli. Það er grunnur réttarríkisins að farið sé að lögum og það skiptir líka máli um framhald þessa máls og um fordæmisgildi. Þess vegna er mikilvægt að allur málflutningur sé vandaður og ég tek undir það sem þeir sem hafa talað á undan mér, m.a. hv. þm. Bjarni Benediktsson, hafa bent á, að í séráliti hv. þm. Magnúsar Norðdahls er að finna mjög ágætan rökstuðning og efnismikinn sem gerir það að verkum að þeir sem hafa góða þekkingu á hinum lögfræðilega hluta málsins geti einmitt rætt það af góðri yfirvegun og þannig að það sé gagn í því fyrir þingið.

Mín afstaða í þessu snýr í fyrsta lagi að þessu grundvallarmáli:

a) Hefur þingið leyfi eða rétt til að taka afstöðu í þessu máli?

b) Á þá að breyta þeirri afstöðu sem var tekin hér þegar þetta mál var fyrst til umræðu og atkvæðagreiðslu og samþykkt var að stefna Geir H. Haarde?

Ég tel einsýnt að því valdi að geta ákveðið að saksækja mann hljóti líka að fylgja ábyrgð, þ.e. að ábyrgðin á saksóknarvaldinu sé hjá Alþingi. Það er illmögulegt að mínu mati að sjá fyrir sér að vald sé án ábyrgðar. Hvaða ábyrgð er það, frú forseti? Það er ábyrgðin að fara þannig með þetta saksóknarvald að um leið og þess er gætt með öllum ráðum að lög og réttur nái fram að ganga sé ekki síður tryggt, og það er grundvallaratriði, að gæta í hvívetna réttinda þess sem borinn er sökum.

Ég ætla ekki, frú forseti, að eyða orðum á þau ummæli sem hv. þm. Þór Saari lét falla um áhuga Sjálfstæðisflokksins á mannréttindamálum. Þau dæma sig sjálf og allir þeir sem hafa fylgst með stjórnmálum og stjórnmálaumræðu á Íslandi vita hversu afkáraleg og mikil afskræming þau ummæli voru. En meira að segja þó að hv. þm. Þór Saari hefði rétt fyrir sér, sem hann auðvitað hefur ekki, hefur það ekkert með Geir H. Haarde að gera og réttindi hans. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til stríðsins í Víetnam eins og hv. þingmaður ræddi hefur ekkert að gera með það hvort Geir H. Haarde eigi að geta treyst því að réttindi hans séu að fullu tryggð. Og þetta eru ekki bara réttindi Geirs H. Haardes sem við erum að fjalla um, málið er miklu stærra en það.

Þá kem ég aftur að því sem ég vísaði til áðan, fordæmisgildis þeirra athafna sem við grípum nú til. Menn verða að hafa í huga að það kann að vera að þetta verði ekki í síðasta sinn sem ákvæði um landsdóm verður beitt á Íslandi. Þess vegna þarf að búa svo um hnútana í allri þessari umræðu að allra þátta málsins sé gætt, að lög og réttur gangi fram og réttindi sakbornings séu tryggð. Skiptir þá engu máli hvort viðkomandi heitir Geir H. Haarde eða eitthvað annað og skiptir þá heldur engu máli afstaða Sjálfstæðisflokksins á árum áður til Víetnamstríðsins eins og augljóst má vera.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar litið er til þeirra sakarefna sem uppi eru, t.d. aðkomu Geirs H. Haardes að hinu svokallaða Icesave-máli, sé hægt að færa fram með rökum að breyting hafi orðið á skilningi manna á þeim atburðum og fyrst og síðast þeirri ábyrgð sem hvíldi á íslenskum stjórnvöldum frá því að Alþingi tók sína ákvörðun og til þessa dags í dag. Það er ekki bara á Íslandi sem það hefur gerst, það hefur gerst víða um heim. Áhrifamiklir ritstjórar erlendra stórblaða sem sérhæfa sig í umfjöllun um viðskiptamál hafa til dæmis bent á það að sú afstaða að það væri ekki íslenska ríkisins að bera ábyrgð á hinum svokölluðu Icesave-reikningum væri rétt og að það væri betra fyrir margar ríkisstjórnir Evrópu að taka til fyrirmyndar þá afstöðu sem íslensk stjórnvöld höfðu á endanum, þ.e. eftir þjóðaratkvæðagreiðslur sem því miður þurfti til. Þá má líka færa fyrir því rök að aðstæður hafi breyst þannig að mat hv. þingmanna á því hvort afstaða þeirra til þeirrar spurningar hvort líklegra sé eða ólíklegra að Geir H. Haarde verði fundinn sekur um það mál kunni að hafa breyst. Þegar menn líta á þá umræðu og þann skilning sem hefur skapast eru málefnaleg rök fyrir því að ætla að á þeim tíma sem liðinn er frá því að Alþingi samþykkti málshöfðunina og til dagsins í dag geti forsendur hafa breyst. Þess vegna, frú forseti, er einmitt ástæða til að bera fram tillögu eins og þá sem hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur borið fram, einkum þó í ljósi þess að hv. þingmenn sem tóku þátt í þessari atkvæðagreiðslu hafa lýst því yfir að þeir hafi breytt um skoðun. Þá kem ég aftur að þeirri skyldu og þeirri ábyrgð sem hvílir á þeim sem fer með saksóknarvaldið, ef það er mat þingsins að það megi leiða að því líkur að það séu minni líkur en meiri til að Geir H. Haarde verði fundinn sekur vilja menn að það komi fram.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að sú niðurstaða þeirrar nefndar sem um þetta mál fjallaði, hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að leggja til að málinu verði vísað frá, sé ekki skynsamleg. Ég vil rökstyðja það. Í fyrsta lagi reyndi á slíka frávísunarkröfu með mjög sambærilegum málatilbúnaði við upphaf þessa máls í þinginu. Í öðru lagi er eina leiðin til að leiða fram með fullnægjandi hætti hvort það sé mat þess sem fer með saksóknarvaldið að slíkar breytingar hafi orðið eða fram komið ný rök í þessu máli sem leiða til þess að það sé rétt að afturkalla ákæruna sú að alþingismenn greiði um það atkvæði, hver og einn samkvæmt sinni samvisku í samræmi við stjórnarskrá, og svari þannig þeirri spurningu, hver fyrir sig, hvort það sé rétt að afturkalla ákæruna á Geir H. Haarde. Þar fyrir utan hefði ég talið heppilegra, úr því að það var vilji meiri hluta nefndarinnar að fara þessa leið, að á þingskjali því sem álit meiri hlutans kemur fram hefði átt að vera sem aðaltillaga sú tillaga sem var varatillaga meiri hluta nefndarinnar, þ.e. að tillagan skyldi felld en síðan hefði með aðgreindum hætti átt að leggja fram rökstudda dagskrártillögu sem nefndin hafði gert að sinni aðaltillögu.

Það eru sérstakar reglur í þingsköpum um frávísunartillögur sem rök eru fyrir. Þær eru ólíkar því sem við sjáum í venjulegum fundarsköpum og gera það að verkum að þegar við erum að ræða þetta mál erum við að setja saman í umræðuna annars vegar frávísunartillöguna og hins vegar efnisþætti málsins sem fyrir okkur liggur. Sú spurning vaknar hvort eitthvað hafi breyst í þeim forsendum sem menn gáfu sér við upphaflegu atkvæðagreiðsluna sem geri það að verkum að menn vilja afturkalla ákæruna. Þess sjást nokkur merki í umræðunni að það er talað um þann þátt málsins sem er eðlilegt vegna þess að það er sá þáttur málsins sem fyrst mun reyna á. Ég veit að það hefur verið umræða um það í nefndinni en það hefði þurft að verða ítarlegri umræða í þingsalnum um þann þáttinn, mat manna á því hvort einhverjar efnislegar breytingar hefðu orðið vegna þess að alþingismenn ættu auðvitað að taka á því í þeirri umræðu, hún ætti að liggja til grundvallar afstöðu þingmanna í atkvæðagreiðslu. Þetta eru þau meginsjónarmið sem ég legg til grundvallar afstöðu minni.

Sérstaklega tel ég að umræðan um Icesave-málið sé nokkuð sem við þurfum að hugsa okkar gang vel með. Í frumvarpinu sem Alþingi samþykkti sem lög en forseti lýðveldisins vísaði í þjóðaratkvæðagreiðslu var tekið mjög skýrt fram í lagatexta að íslenska ríkið bæri enga ábyrgð að lögum á hinum svokölluðu Icesave-reikningum. Það varð niðurstaða meiri hluta Alþingis og það hlýtur því að vera í það minnsta einnar messu virði á Alþingi hvort þessi atriði geri það að verkum að menn vilji endurskoða hug sinn. Ég ítreka, frú forseti, að bæði hæstv. ráðherrar og eins hv. þingmenn sem véluðu um þessi mál í upphafi sem höfðu þann sérstaka trúnaðarstarfa fyrir hönd þingsins að undirbyggja þennan málflutning í þinginu með framlagningu skjala, einstaklingar sem sátu í þessari nefnd, hv. þingmenn, hafa lýst því yfir að þeir hafi breytt um afstöðu í málinu og vilji láta reyna á það í þingsal hvort það sé meiri hluti fyrir þessari málshöfðun eða ekki. Ég tel, frú forseti, fyllilega ástæðu til að fella þessa frávísunartillögu og taka til efnislegrar niðurstöðu og atkvæðagreiðslu þingmálið sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði fram.

Að lokum, frú forseti, ítreka ég að allar þær ákvarðanir sem við tökum núna og rökstuðningur fyrir þeim mun ekki bara skipta máli í þessu tiltekna dómsmáli heldur líka seinna komi til þess að aftur verði höfðað mál gegn ráðherrum á grundvelli landsdómslaga. Þess vegna gef ég lítið fyrir ræður eins og þær sem til dæmis hv. þm. Þór Saari hélt áðan. Ég gef meira fyrir málflutning manna eins og hv. þm. Magnúsar Norðdahls sem ég nefndi áðan og þess álits sem hann hefur sett fram. Án þess að fella stóra palladóma um hv. alþingismenn tel ég í það minnsta óboðlegan þann málflutning sem snýr að því að stefna Sjálfstæðisflokksins í einstökum málum, óskyldum þessum, geri það að verkum að menn dragi í efa að sá maður sem sökum hefur verið borinn á Alþingi eigi að njóta fullra réttinda.

Það allra síðasta, frú forseti, sem ég vil segja er að ég get ekki fallist á þau rök að ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að með því að draga til baka dómsmálið gegn Geir H. Haarde hafi það þar með rofið dóminn og haft afskipti af dómstólnum. Það tel ég ekki vera. Ég byggi þá afstöðu mína á því, frú forseti, að Alþingi fer með þetta saksóknarvald, þau réttindi, þær skyldur og þá ábyrgð sem slíku fylgja. Alþingi hefur rétt, eins og reyndar kemur fram í áliti meiri hlutans, til að draga þessa málsókn til baka. Talsmaður meiri hlutans í málinu, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, hefur sagt bæði úr ræðustól og líka í fjölmiðlum að það sé rétt að þingið megi þetta en það sé ekki þar með sagt að það eigi að gera það. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Þess vegna þarf umræðu um og síðan atkvæðagreiðslu þingmanna þar sem hver og einn þingmaður svarar þeirri spurningu hvort þingið eigi að gera þetta úr því að það má samkvæmt lögum og þá kemur þessi spurning sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir einmitt benti réttilega á: Er rétt fyrir þingið að grípa til slíkra ráðstafana? Þá tel ég rétt og alveg nauðsynlegt að kalla fram vilja og skoðun þingmanna með atkvæðagreiðslu. Það tel ég langbest fyrir það mál sem við erum að fást við núna, bæði málið sjálft og líka möguleg mál sem kynnu að rísa síðar meir á sama grunni.