140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru allt góðra gjalda verðar spurningar frá hv. þingmanni.

Menn hafa gert greinarmun á því að einhverjir verði annars vegar að bera einhvers konar refsiábyrgð og hins vegar pólitíska ábyrgð. Menn hafa spurt: Ætlar enginn að bera pólitíska ábyrgð? Þá kem ég að þeirri atburðarás sem hv. þm. Mörður Árnason nefnir, ástæðan fyrir því að ég hef ekki áhyggjur af slíkum uppákomum sem hv. þingmaður nefnir er sú að þingmenn eru ábyrgt fólk, þeir eru kosnir hér sem fulltrúar þjóðarinnar. Ég tel að þó að menn hafi alls konar möguleika til að túlka þingsköpin og standa fyrir ýmiss konar málflutningi að ábyrgðartilfinning þingmanna muni gera það að verkum að skrípaleikur eins og sá sem hv. þingmaður lýsti muni ekki fara af stað.

Það sem hér er á ferðinni, og nauðsynlegt að hafa það á hreinu, er að færð hafa verið málefnaleg rök fyrir því að orðið hafi þær breytingar sem hefur meðal annars komið fram hjá þingmönnum sem áttu sæti í þeirri nefnd sem vann málið fyrir þingið, að ástæða sé til þess að láta á þetta reyna. Það er langbest að mínu mati að gera það og gera það sem fyrst.

Hvað varðar Icesave-málið tel ég að málstaður okkar Íslendinga sé réttur og sannur og að ekki sé við hæfi að íslensk stjórnvöld grafi þannig undan málflutningi landsins erlendis með því að fara í þessa málsókn gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Ég tel það ekki eðlilegt eða skynsamlegt. Ég tel að málflutningur okkar hafi verið réttur, ég tel að það hafi verið rétt þegar lögum þeim sem Alþingi hafði samþykkt var hafnað af þjóðinni. (Forseti hringir.) Þar kom skýrt fram að ábyrgð íslenska ríkisins væri ekki á slíkum reikningum.