140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur, svo að ég víki nú fyrst að Icesave-málinu var það röksemdafærsla sem ég setti fram sem snýr að þeirri spurningu hvort orðið hafi einhverjar þær efnislegu breytingar sem gera það að verkum að sá sem fer með ákæruvaldið og þar með þær skyldur sem því fylgja þurfi að leggja mat á það í aðdraganda dómsmáls hvort þær breytingar séu þess eðlis og til þess fallnar að tekin verði ákvörðun um að draga málið til baka. Það er sú skylda sem hvílir á ákæruvaldinu. Í þessi máli hvílir sú skylda á Alþingi af því að það er Alþingi sem fer með ákæruvaldið. Þessi röksemdafærsla svarar hinum þætti málsins, þ.e. að vissulega er það rétt sem hv. þingmaður bendir á, hér geta menn endalaust komið fram með tillögur, þó að komist verði að þeirri niðurstöðu í landsdómi að Geir H. Haarde verði sýkn saka, (Forseti hringir.) er auðvitað hætta á því að menn breyti hér stjórnarskrá í framtíðinni þannig að möguleikinn á að gera slíkt verði hafður opinn til langs tíma. (Forseti hringir.) Jú, það er möguleiki, en ég hef enga trú á að það verði gert, hv. þingmaður, vegna þess að ég hef heilmikla trú á ábyrgðartilfinningu og skynsemi þingmanna.