140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar og það er reyndar margt sem ég hef við hana að athuga en einkum tvennt sem ég vildi inna hv. þingmann eftir sérstaklega. Hann tók drjúgan tíma í að ræða um réttindi hins ákærða í þessu máli og gaf í skyn að þau væru ekki tryggð, eins og ég skildi mál hans.

Þá vil ég vekja athygli á því að í úrskurði landsdóms frá 3. október er meðal annars tekist á um kröfu verjandans um að vísa málinu frá á grundvelli jafnræðissjónarmiða og eftir því sem ég fæ best lesið út úr þessu máli var niðurstaða landsdóms einmitt sú að ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar hefðu ekki verið brotin við meðferð málsins á Alþingi. Er hv. þingmaður ósammála þessari niðurstöðu landsdóms?

Hitt atriðið sem ég vildi nefna er á sömu nótum og það sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi, það eru rök, sem mér finnast alveg dæmalaus, um að afstaða einhverra þingmanna kunni að hafa breyst. Það er fabúlerað um það í fjölmiðlum að kominn sé annar meiri hluti í málið án þess að það hafi í raun á það reynt, það veit enginn satt að segja, en er notað sem sérstök málsrök. Þá hlýtur maður að spyrja á almennum nótum, af því að þingmaðurinn talaði um að þetta gæti bara orðið daglegt brauð í framtíðinni: Er þingmaðurinn þá þeirrar skoðunar að kanna eigi afstöðu þingsins reglulega á meðan málið er í höndum saksóknara, til dæmis vikulega eða hálfsmánaðarlega, á vettvangi einhverrar þingnefndar eða í þingsal? Því að það er í raun það sem þingmaðurinn býður upp á með málflutningi sínum.