140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á síðari spurningu þingmannsins. Þeir hv. þingmenn sem komið hafa í ræðustól og lýst fyrir þinginu hvers vegna þeir hafa skipt um skoðun hafa fært fyrir því málefnaleg rök. Það er ekki bara þannig að menn hafi skipt um skoðun, þeir hafa líka fært rök fyrir því. Það er mikilvægt.

Síðan er ástæða til þess, í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er, að þingið er búið að taka til umfjöllunar tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, það taldi hana þingtæka. Sú tillaga fer til nefndar. Ég tel skynsamlegt og rétt að í stað þess að henni verði vísað frá, sérstaklega í ljósi þess að Alþingi hefur áður ákveðið að taka tillöguna til meðferðar, verði hún tekin til atkvæðagreiðslu og að kallað verði eftir því hjá hverjum og einum þingmanni hvort hann telji að málsrök hafi breyst þannig að ástæða sé til að draga ályktunina til baka.

Ég nefndi einn þátt málsins sem snýr að Icesave-málinu. Aðrir þingmenn hafa nefnt aðra þætti sem verið hafa grunnur fyrir röksemdafærslu þeirra. Hvað varðar mannréttindi sakborningsins eru þau auðvitað mjög mikilvæg. Það sem ég benti á, frú forseti, í því máli varðar rétt sakborningsins, að sá sem fer með saksóknarvaldið standi jafnframt undir þeirri ábyrgð sem af því leiðir. Og ef sá aðili kemst að þeirri niðurstöðu á einhverjum tímapunkti í málsmeðferðinni að málið hafi tekið aðra stefnu vegna þess að fram hafi komið ný sjónarmið, nýr skilningur á fyrirliggjandi gögnum eða ný gögn eða hvað sem það nú er, sé rétt, meðal annars út frá réttindum (Forseti hringir.) sakborningsins, að slíkur vilji komi fram og sakborningurinn (Forseti hringir.) geti treyst því að saman fari ábyrgð og vald.