140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum að nýju afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Við tókumst hér á 20. janúar sl. um hvort þessi þingsályktunartillaga skyldi tekin fyrir í nefnd og fram kom dagskrártillaga um frávísun. Hún var felld og málið fór síðan til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fékk þar þá þinglegu meðferð sem kallað hafði verið eftir. Sú þinglega meðferð leiddi til þess, frú forseti, að fram kom dagskrártillaga um að vísa málinu frá. Ef dagskrártillaga um frávísun verður felld er varatillaga meiri hluta nefndarinnar sú að fella þingsályktunartillögu um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde. Það er tvennt í hinni þinglegu meðferð sem ég verð að fá að láta í ljós óánægju mína með.

Landsdómur vísaði frá tveimur veigamiklum ákæruliðum vegna þess að landsdómur féllst á að þeir væru ekki nægilega skýrir til að hægt væri að verjast þeim og þar af leiðandi var þeim vísað frá. Dómurinn taldi að öðru leyti að ákæran fullnægði kröfum laga, ekkert annað en að hún fullnægði kröfum laga. Ákæruatriðin sem vísað var frá tók ég fyrir í fyrri minni ræðu hér 20. janúar og ég ætla, með leyfi forseta, að endurtaka þau. Ég er enn þeirrar skoðunar að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði átt að skoða það og fjalla um hvort ákæruatriðin sem féllu brott væru þess eðlis að það mætti skoða sem forsendubrest fyrir þeirri ákæru sem liggur fyrir. Ég tel það mjög málefnaleg rök af minni hálfu að hafa óskað eftir því að nefndin tæki slíkt til umræðu. Hún gerði það ekki.

Þessi ákæruatriði eru í fyrsta lagi, frú forseti, að forsætisráðherra hafi sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins. — Þessari ákæru vísar landsdómur á bug.

Í öðru lagi, frú forseti, að ráðherra hafi látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli. — Þessu vísar landsdómur líka á bug sem ákæru, telur óskýrt og verjanda ekki mögulegt að verjast slíkri ákæru.

Ég tel enn, frú forseti, að þetta séu veigamestu þættirnir í ákærunni sem þingmannanefndin, sjömenningarnir, lagði fram á hendur Geir H. Haarde og samþykkt var hér 28. september 2010. Ég hefði kosið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði farið yfir og skoðað þessa þætti, því að eftir standa þau atriði sem varða afmarkaðar aðgerðir, svo sem eftirlit með samráðshópum, flutningi Icesave-reikninga í dótturfélag í Bretlandi, auk þess að halda ekki ríkisstjórnarfundi.

Frú forseti. Ég segi enn, eins og ég sagði 20. janúar, að mér er til efs að hefðu þessir ákæruliðir staðið einir og sér hefði verið ákveðið að ákæra Geir H. Haarde. Þess vegna finnst mér enn vanta inn í umræðuna hvort og af hverju það teljast ekki málefnaleg rök þegar landsdómur ákveður að víkja burt jafnveigamiklum atriðum og ég hef hér tilgreint.

Mönnum hefur orðið tíðrætt í dag um inngrip í dómsmál. Menn hafa rætt hér frumkvæðisskyldu ákæruvaldsins og menn hafa tekist á um frumkvæðisskyldu ákæruvaldsins í þessu máli versus önnur sakamál, því hér er um sakamál að ræða þó að fram fari fyrir landsdómi og verði sakborningur fundinn sekur á hann á hættu að verða dæmdur í allt að tveggja ára fangelsi. Margir telja frumkvæðisskyldu Alþingis sem ákæruvalds ekki vera fyrir hendi, heldur sé það saksóknarans sem Alþingi kaus til verksins en frumkvæðisskylda ákæruvalds í öðrum málum sé fyrir hendi og þá hlýtur maður að spyrja sig: Hver er í raun og veru munurinn?

Hv. þm. Magnús Norðdahl rakti hér í minnihlutaáliti sínu, hressilega og af skörungsskap, skoðanir fyrrum lögspekinga, þeirra Lárusar H. Bjarnasonar, Bjarna heitins Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar, en sagði hins vegar að aðrir lögspekingar, sem hafa aðra skoðun en þeir þrír, hefðu ekki skrifað fræðigreinar heldur greinar í blöð. Engu að síður er það svo árið 2012 að margir þeirra lögfræðinga og lögspekinga sem komu fyrir nefndina voru þeirrar skoðunar að Alþingi hefði þetta vald og meiri hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu.

Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi sem ákæruvald hafi þessa frumkvæðisskyldu rétt eins og annað ákæruvald hér á landi og það sé styrkur íslensks réttarkerfis að svo sé. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, frú forseti, að landsdómur sé úrelt fyrirbæri. Það sýnir best sú umræða sem hér fer fram í dag og fór fram 20. janúar sl. og í september 2010. Landsdómur er úrelt fyrirbæri.

Það gæti verið stolt Alþingis að afturkalla þessa ákæru, koma eftir nefndavikuna með frumvarp til laga um að fella úr gildi lög um landsdóm og tryggja það að enginn sé dreginn fyrir dómara nema samkvæmt almennum hegningarlögum. Það gæti verið styrkur Alþingis. En mér er til efs, frú forseti, að þann styrk hafi Alþingi Íslendinga, því miður. Í mínum huga er það hið eina rétta sem þessi stofnun ætti að gera hér og nú.

Mönnum hefur, sumum, verið tíðrætt um ábyrgð á hruninu. Ég hef sagt og segi enn: Sá flokkur sem ég var kjörin fyrir á þing, Sjálfstæðisflokkurinn, sem sat hér samfellt í stjórn frá 1991 til janúarloka 2009, ásamt öðrum flokkum, ber á því ábyrgð — ber á því ábyrgð að hluta — ég hef aldrei skorast undan því. Aldrei. En ég mun aldrei, frú forseti, fallast á það að frelsi einstaklings til orðs og athafna sé undirrót alls ills. Ég tel þvert á móti að það sé það sem knýr frumkraftinn í fólki til athafna. Flest allt annað drepur í dróma kraft fólks í þessu landi.

Ég er líka þeirrar skoðunar, frú forseti, að þeirri ríkisstjórn sem setið hefur hér frá 1. febrúar 2009 sem minnihlutastjórn og síðan eftir kosningarnar 2009 hafi orðið illilega á í efnahagsmálum þjóðarinnar. En mér mundi aldrei, frú forseti, detta í hug að draga þá ráðherra sem þar hafa setið í forustu fyrir landsdóm vegna þess. (Gripið fram í: … Icesave?) Vegna þess. Ég hafna því að sitja undir því sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins að hafa neitað að bera ábyrgð á því sem hér gerðist, að hluta til, vegna þess að ég ætla mér aldrei að bera ábyrgð á því öllu. Ég segi enn eins og ég sagði fyrrum: Eigendur bankanna átu þá að innan, þeirra er skömmin. Eftirlitskerfið brást og við hefðum sem þjóð og sem löggjafi átt að hafa rammann skýrari.

Menn hafa sagt hér í dag að afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde þýddi ekki að málinu væri lokið. Nei, þá er það svo, en það hlýtur þá að vera annað mál sem yrði tekið fyrir. Nú þegar hafa verið boðaðar þingsályktunartillögur þess eðlis að draga fjóra ráðherra fyrir dóm. Þær liggja fyrir, þær eru komnar fram. Þær hljóta að fá hér umræðu, þær hljóta að fá þinglega meðferð og um þær verða væntanlega greidd atkvæði. Tillögurnar eru komnar fram. (Gripið fram í.)

Það að segja við fólk að málinu sé ekki lokið þó að þessi tillaga verði dregin til baka, þá var í það minnsta sú tillaga sem var samþykkt hér 28. september 2010 dregin til baka og henni er lokið hvað það varðar, nema menn kjósi á næstu þremur til sex mánuðum að flytja hana aftur. Þannig er það og þannig er um flestöll sakamál eftir því sem ég kemst næst, en ég er þó ekki löglærð og get tekið undir með ýmsum sem hér hafa talað að þetta er kannski þannig mál að sumir ættu ekki einu sinni að ræða það, af því þeir hafa ekki málefnaleg rök, af því þeir hafa einhverja aðra skoðun en einhver vill að einhver annar hafi. Mjög sérstakt.

Hins vegar er sú umræða sem kom hér upp í dag, að verði ekki af þessu máli þá tapist gögn, eiginlega sú fáránlegasta sem fram hefur komið sem rök í því að halda málinu áfram. Að það sé ástæða til að halda málinu áfram að þau gögn sem fram eru komin verði hugsanlega ekki opinber hverjum og einum í landinu. Frú forseti. Umræða í þessa veru er komin langt út fyrir allt velsæmi.

Við erum að tala hér um ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra landsins um hvort meiri líkur séu á því að hann verði sakfelldur en sýknaður, að öðrum kosti er ekki gefin út ákæra. Hér töldu menn 28. september 2010 meiri líkur á sakfellingu en sýknu og þess vegna ákváðu þeir þingmenn að ákæra. Við þekkjum það ferli. Síðan hafa menn komið fram með þær skoðanir sínar, m.a. þeir sem greiddu atkvæði með ákæru, að ekki hafi verið rétt að málum staðið. Þetta þykja mörgum léttvæg rök til þess að fá aftur til umræðu og atkvæðagreiðslu afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde.

Talað hefur verið um að menn geti skipt um skoðun af ýmsum ástæðum. Það er rétt, fólk skiptir örugglega um skoðun af ólíkum ástæðum. Hins vegar er ekki þar með sagt að þeir sem greiddu atkvæði gegn því að ákæra Geir H. Haarde séu sammála því að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde. Og þó að hér séu þingmenn sem hafa skipt um skoðun og mundu nú vera tilbúnir til að greiða ekki atkvæði með ákæru, greiða þeir væntanlega atkvæði með afturköllun ákærunnar. Það er ekkert í þeirri atkvæðagreiðslu sem hugsanlega kæmi til, verði þessi frávísunartillaga felld sem ég vona innilega, og þá komi til atkvæða afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde og þá verði skýr vilji Alþingis Íslendinga um að halda því máli áfram eða draga það til baka.

Ég spyr og ég velti fyrir mér: Af hverju má ekki ganga til þeirrar atkvæðagreiðslu? Af hverju má ekki ganga til þeirrar atkvæðagreiðslu á Alþingi Íslendinga hvort meiri hluti er fyrir því að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde? Af hverju ekki, þegar menn eru þeirrar skoðunar í meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að ákæruvaldið sé hjá Alþingi? Af hverju má þá ekki koma til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar um að draga til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde? Hvað liggur þar að baki? Af hverju ekki?

Það hefur enginn svarað því, frú forseti, af hverju menn eru ekki tilbúnir í þá atkvæðagreiðslu. Enginn. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Allt í álitinu.) Í álitinu, kalla hér tveir hv. þingmenn Lúðvík Geirsson og Álfheiður Ingadóttir fram í. Í álitinu felst að menn vilja frávísun, þeir vilja ekki atkvæðagreiðslu nema frávísunartillagan verði felld. Þannig stendur það og þannig er álit meiri hlutans.

Þess vegna segi ég: Ég óska þess að Alþingi Íslendinga hafi þann kjark að draga til baka þessa afturköllun um ákæru. Ég óska þess líka að Alþingi Íslendinga hafi til þess kjark að koma fljótt með frumvarp þess eðlis að fella úr gildi lög um landsdóm. Því fyrr, því betra.

Sagt er að Alþingi Íslendinga geti ekki komið sér saman í stjórnarskrármálinu vegna þess að þingmenn séu með ólíkar skoðanir og ekki reiðubúnir til þessa eða hins, en þingmenn á Alþingi geta komið sér saman um að draga menn fyrir dóm. Okkur ferst það mál álíka illa úr hendi og umræðan um stjórnarskrána.