140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Því er fljótsvarað hvers vegna meiri hluti nefndarinnar kýs að fara frávísunarleiðina. Það hefur komið mjög skýrt fram hér í dag og ástæðan er sú að nefndin telur verulegan vafa og er þeirrar skoðunar að þingið hafi ekki heimild til að taka ákvörðunina. Af þeim ástæðum er lagt til að málinu verði vísað frá. Nefndin er líka á þeirri skoðun að ef þingheimur telur sig hafa þetta vald verði farið í hina atkvæðagreiðsluna og lagt til að tillagan verði felld. Svo einfalt er það. Það er enginn glæpur í þessu fólginn.

En aðeins af því hv. þingmaður minntist líka á þá aðra þrjá ráðherra sem ekki voru ákærðir, hvort þá kæmi upp að þeir yrðu ákærðir aftur. Sjáðu nú til, (Gripið fram í: Hv. þingmaður.) hv. þingmaður, það er þannig að sinnaskipti þeirra sem nú hafa skipt um skoðun gerðust svo seint að líkast til eru þær sakir fyrndar. Ef þeir hefðu skipt um skoðun á þeirri forsendu að aðeins einn væri ákærður en ekki fjórir daginn eftir atkvæðagreiðsluna og farið hefði verið í að reyna að ákæra þá aftur alla saman, ef menn hefðu kosið það og að breyta málflutningi sínum eða eitthvað svoleiðis, þá hefði það verið hægt. En það hefur tekið þá 15, 16 mánuði að skipta um skoðun. Á meðan fyrnist málið og það má velta því fyrir sér að það sé kannski ástæðan fyrir því hversu seint þetta kemur fram.

Síðan aðeins að lokum um það sem gerðist í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það var mjög einfalt. Það var farið mjög ítarlega yfir þetta vegna þess að það er ein af þeim ástæðum sem raktar eru í greinargerð tillöguflytjanda að búið sé að taka út tvo ákæruliði. Þess vegna var farið mjög ítarlega yfir þetta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Saksóknari Alþingis var spurður sérstaklega að því hvort þetta hefði breytt einhverju efnislega í grunninn. Svarið við því var nei.