140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Enginn glæpur fólginn í því. Nei, að sjálfsögðu er enginn glæpur fólginn í því að hafa þá skoðun sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur samt sem áður þá skoðun að Alþingi hafi ákæruvaldið en nefndin hefur hins vegar þá skoðun að ákæruvaldið eigi ekki að grípa inn í dómsmál. Um það er ágreiningur, hv. þm. Magnús Norðdahl. Ég er þeirrar skoðunar að ákæruvaldið sé Alþingis og ég er þeirrar skoðunar að ákæruvaldið í þessu máli, eins og öllum öðrum málum, geti gripið inn í þegar það telur ástæðu til. Ég tel hins vegar, og það verður þá að hafa það þó að saksóknari Alþingis, Sigríður Friðjónsdóttir, sé mér ekki sammála, það er allt í lagi með það, að þau atriði sem dregin eru út úr ákærunni og rædd voru í þingmannanefndinni hafi verið þau sem þingmannanefnd og þeir sem þar sátu töldu veigamest. Ég ítreka enn að mér er til efs að ef hin atriðin hefðu staðið ein og sér í ákæru hefði verið ákært. En það er enginn glæpur fólginn í því, það voru ekki mín orð, þó að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kæmist að þeirri niðurstöðu sem hún komst að. Alls ekki.