140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Hæstv. ráðherra telur að sú ákvörðun landsdóms að ástæðulaust væri að halda vakandi fyrstu tveimur ákæruatriðunum, sem ég fór reyndar yfir í ræðu minni áðan, sé nægilegt tilefni til að skoða málið. En fyrsta ákæruatriðið var fylling við önnur ákæruatriði, ekki var verið að fella ákæruatriðið niður enda taldi landsdómur, og ég vísað í það áðan í ræðu minni og vitnaði í úrskurð landsdóms, að þau ákæruatriði sem rúmuðust í fyrsta ákæruatriðinu væru hvort eð er innan hinna fjögurra sem landsdómur ákvað sömuleiðis að halda áfram. Það var því engin eðlisbreyting á málinu. Þessu atriði, þessari túlkun landsdóms var saksóknari sammála og segir það sömuleiðis, með leyfi forseta, svo ég endurtaki það:

„Fyrri liðurinn, þ.e. fyrsti liður ákærunnar, er til fyllingar öðrum ákæruliðum eða eins og segir í úrskurðinum […]“

Það er ekki verið að fella neitt niður eða hætta við nokkurn skapaðan hlut heldur er verið að einfalda hlutina vegna þess að þeir hafa á einhverjum stöðum verið tvíteknir.

Hæstv. utanríkisráðherra nefnir að hann sé þeirrar skoðunar að rétt sé að skoða málið að nýju. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég taldi enga ástæðu til þess í desember þegar berja átti þetta mál í gegn á nokkrum klukkutímum að taka það aftur til skoðunar. Ég var heldur ekki þess álits í janúar þegar Alþingi ákvað að taka þetta mál til frekari skoðunar vegna þess að ég sá ekkert þá til rökstuðnings þeirri málsmeðferð. En það var þó gert. Málið var sent til skoðunar og nú hefur það verið skoðað að nýju, búið er að halda ótal fundi um það, tugi funda í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og kalla til fjölda gesta. Það er búið að taka annan rúnt af því. Niðurstaðan er sú sama af hálfu meiri hluta nefndarinnar, að halda málinu áfram. (Forseti hringir.) Minni hlutinn hefur ekki fært nein rök fyrir þeim eðlisbreytingum sem taldar hafa verið á málinu af hans hálfu.