140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég kann enga skýringu á því af hverju sjálfstæðismenn yfirgáfu þingsalinn áður en ræða mín hófst, og ekki hefur sést til þeirra síðan, hvorki í hliðarsölum né heyrst fótatak á göngum sem mætti merkja að það væru sjálfstæðismenn á ferð. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.] Kannski má rekja það til sömu ástæðu og ég nefndi varðandi nefndarálit þeirra; það eru engin rök fyrir málatilbúnaði þeirra, hann stenst ekki rökfærsluna, stenst ekki rökræðuna og þess vegna hverfa menn kannski af vettvangi. (Gripið fram í.) Þegar rökræðuna þrýtur er kannski hollast að láta sig hverfa.

Mér hefur ekki verið hótað af nokkrum manni, ég hef ekki hótað nokkrum manni, ég hef aldrei nokkurn tíma tíðkað slíkt og mun ekki gera og ég ætla að vona að mér verði heldur ekki hótað.