140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:49]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér finnst mér vera vont mál. Mér finnst það vont vegna þess að það hvetur til þess að löggjafinn blandi sér í dómsmál sem nú er í gangi fyrir landsdómi. Mér finnst þetta það vont mál að ég hef í raun og veru ekki viljað tjá mig um það, en í ljósi umræðunnar finnst mér í lagi að gera grein fyrir áherslum mínum í því.

Ákæruvaldið í ráðherraábyrgðarmáli er hjá alþingismönnum en eftir að þingið hefur tekið ákvörðun um ákæru og falið saksóknara Alþingis málið hefur þingið einungis aðkomu að málinu í gegnum saksóknarnefnd þingsins, fimm manna nefnd allra þingflokka sem á að fylgjast með saksókninni, vera saksóknara til aðstoðar og ýta á eftir saksókninni ef þörf krefur. Ef saksóknari kemur fram með efasemdir um tiltekin atriði ákærunnar á hann leið í gegnum saksóknarnefnd til að koma efasemdum sínum á framfæri og leggja það til við nefndina að ákæru verði breytt eða hún dregin til baka.

Saksóknari Alþingis sem fer með ákæruvaldið í umboði þingsins hefur ekki komið með slíkar efasemdir fyrir saksóknarnefndina og raunar tjáð henni og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni að ekkert efnislegt hafi komið fram í málinu sem breyti því eða kalli á að ákæran sé dregin til baka.

Þrískipting valdsins er grundvöllur lýðræðisins og mér finnst alvarlega vegið að þeim grundvelli með því að grípa inn í dómsmál sem er í ferli, með svo afgerandi hætti sem hér er gert. Fyrir mér er það kristaltært að þingið megi það ekki að eigin frumkvæði og finnst það til umhugsunar fyrir þá sem telja það mega hvort slíkt sé ekki að minnsta kosti siðferðilega kolrangt og umhugsunarvert upp á hvaða spillingu og pólitískt valdatafl slík túlkun geti boðið. Ég veit að hér hafa komið fram rök í málinu um að slíkt megi en ég tel þetta sem sagt vera kristaltært og tek þar með undir niðurstöðu hv. þm. Magnúsar Norðdahls.

Gömlu stjórnskipunarfræðingarnir sem sömdu lagabálka um landslög og tjáðu sig síðan um þau voru líka pólitíkusar. Þeir vissu sínu viti og fannst varla þurfa að rökstyðja það að þingið ætti ekki að skipta sér af málinu eftir að ákvörðun hefði verið tekin. Það sem þó skiptir máli er að þeir sem þó álíta að Alþingi megi grípa inn í ferli málsins segja að fram hafi komið efnisleg rök í málinu sem réttlæti afturköllun. Það kemur fram í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að til fyllingar landsdómslögum séu lög frá 1. janúar 2009 um meðferð sakamála, þau geti fyllt upp í landsdómslögin. Í 153. gr. þeirra laga eru ákvæði um afturköllun ákæru og frest til útgáfu framhaldsákæru. Þar segir að ákærandi geti breytt eða aukið við ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef nýjar upplýsingar hafi komið fram. Í 146. gr. er mælt fyrir um heimildir ákæruvaldsins til að falla frá saksókn ef fyrir hendi eru efnislegar ástæður, svo sem ef brot eru smávægileg eða fyrirsjáanlegt er að umfang málsins verði í verulegu ósamræmi við þá refsingu sem vænta má, brot hafi valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum eða aðrar sérstakar ástæður mæli með því að fallið sé frá saksókn, enda krefjist almannahagsmunir ekki málshöfðunar.

Í tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar um afturköllunina eru þau efnisatriði sem eiga að réttlæta að talin sé ástæða til að draga ákæruna til baka eða þau rök sem ég að minnsta kosti sé að baki því, tvenns konar. Annað atriðið er að einungis einn var ákærður en ekki fjórir og hitt að dómsmálið yrði svo dýrt. Það er spurning hvort þetta eru rök í málinu. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki áður heyrt í svona alvörumálum að sagt sé eins og ungmennin segja svo gjarnan, frú forseti: Úps! Ertu bara einn eftir? Þetta er náttúrlega ekki hægt, við verðum bara að sleppa þér líka úr því að hinir þrír sluppu. — Slíkt geta varla talist rök í dómsmáli. Varðandi kostnaðinn held ég að við verðum að horfast í augu við það að hann hefur að mestu verið greiddur því ekki er mikið eftir af ferlinu ef það fær að hafa sinn gang. Þessi efnisatriði eru á engan hátt í samræmi við þá viðmiðun sakamálalaganna sem ég var að fara yfir og því á engan hátt til þess fallin að rökstyðja það stóra skref sem afturköllun ákæru er.

Landsdómsmálið í heild sinni hefur verið okkur öllum erfitt. Það að þurfa að vera í sporum ákæranda er engu okkar auðvelt en öll tókum við það hlutverk okkar alvarlega, tókum ákvörðun eftir íhugun og yfirlegu og sú meðvitaða ákvörðun hlýtur að standa, eða hvað? Þess vegna er ég núna himinlifandi yfir því að komin sé fram önnur frávísunartillaga á þá tillögu sem hér liggur fyrir. Þá fáum við tækifæri til að staðfesta að þetta mál eigi ekki heima hér formsins vegna og að minnsta kosti vegna þess að engin málefnaleg rök hafa komið fram fyrir því að saksókn eigi að fella niður. Þess vegna er gott að fá tækifæri til að vísa þessu vonda þingmáli frá.