140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:56]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég boðaði það í fyrri ræðu að ræðan yrði í tveimur hlutum eða fleiri. Ég vona að ekki verði fleiri hlutar en tveir, en mig langaði til og ætla sumsé að fjalla ofurlítið um hugtakið ábyrgð. Það kann að þykja skrýtið að gera það á tólfta tímanum síðasta daginn í febrúar, þennan óvenjulega hlaupársdag. En forseti Alþingis kaus að hafa það þannig að talað væri um þetta mikilvæga mál inn í nóttina og enginn deilir við forseta Alþingis sem styðst hér við gríðarlegan þingmeirihluta og allir eru hoppandi af hamingju yfir á hverjum degi.

Það er þannig, og það er algerlega eðlilegt, að fólk spyr: Af hverju stendur þessi maður, Geir Hilmar Haarde, einn uppi? Af hverju ráðast menn að honum einum þegar alveg ljóst er að miklu, miklu fleiri voru ábyrgir, miklu, miklu fleiri blönduðust inn í hrunið, miklu, miklu fleiri sáu veiðina — svo vitnað sé í Árna Mathiesen í þessum stól: sjáiði ekki veiðina — og miklu, miklu fleiri og aðrir kannski létu stjórnast af græðgi? Hægt er að nefna nöfn í þessum sal sem beinlínis tengjast atvikum í hruninu með miklu nærtækari hætti en Geir Hilmar Haarde. Ég ætla ekki gera það vegna þess að það tekur frá mér tíma en verði skorað á mig að gera það skal ég gera það. Þetta eru algerlega eðlilegar spurningar og réttar.

Margir spyrja: Af hverju Geir, þegar miklu fleiri eru ábyrgir og kannski allir Íslendingar eru með einhverjum hætti ábyrgir — svo ekki sé minnst á alþjóðakreppuna sem hv. þm. Björn Valur Gíslason ræddi mjög kátlega um áðan — þegar þetta er okkur öllum að kenna? Þetta er mikilvæg spurning og svarið sem ég ætla að veita hér er tvöfalt. Ég hef tekið með mér 8. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis og ætla að lesa hana á þeim tíu mínútum sem ég á eftir, sjö mínútum, frá upphafi til endis.

Í fyrra falli. Sumir spyrja, margt grandvart og heiðarlegt fólk: Já, landsdómur, það er kannski eðlilegt en af hverju er hann einn fyrir landsdómi? Svarið er auðvitað það að Geir H. Haarde er ekki einn. Fyrir utan bankakallana, sem hinn sérstaki saksóknari er vonandi núna að ná í skottið á loksins eftir að hafa búið sín mál til, að ráðum Evu Joly meðal annars, sem við vonum að séu með vönduðum hætti, þá eru fleiri á leiðinni.

Um daginn var felldur dómur í Hæstarétti yfir fyrrverandi ráðuneytisstjóra. Sá ráðuneytisstjóri var að störfum meðan Geir Haarde réð ríkjum í Stjórnarráðinu og aðrir fyrrverandi stjórnmálamenn og núverandi stjórnmálamenn eiga við sinn vanda að etja. Þó að þeir sitji vissulega ekki í fangelsi og lendi ekki fyrir dómstólum eiga þeir við sinn vanda að etja hvar sem þeir eru niðurkomnir nú í augnablikinu í ýmsum löndum og stöðum, hér í þinginu og annars staðar. Ég verð að segja enn einu sinni af minni hálfu að ég taldi um alla þá fjóra sem til voru lagðir í skýrslu þingmannanefndarinnar að það væru meiri líkur en minni á sakfellingu þeirra fyrir landsdómi og ég er enn þá þeirrar skoðunar. Ég veit að það er dónalegt en það er þannig.

Ég er ekki viss um að það hafi verið greiði við hin þrjú, þau önnur en Geir, að þau væru sýknuð hér í salnum, vegna þess að með nokkrum hætti var það það sem fór fram, að hið fjölskipaða stjórnvald hér, hinn fjölskipaði ákærandi sem hæstv. utanríkisráðherra minntist á, tók sér það bessaleyfi að sýkna hin þrjú. Það var hins vegar gert og það ætla ég að virða og það verðum við að virða. Ég er líka sammála hv. þm. Atla Gíslasyni sagði: allir, einn eða enginn — efnislega. Rökleg niðurstaða var þrenns konar, allir, einn eða enginn og þá Geir Hilmar Haarde sem skipstjórinn á skútunni. Það var ekki auðvelt hér í september árið 2010 frekar en fyrir hæstaréttardómarana í málinu gegn Baldri Guðlaugssyni. Það var ekki auðvelt fyrir þingmenn að dæma einn úr sínum hópi, fyrir átta ráðherra úr ríkisstjórn Geirs Haardes að taka afstöðu til málsins og þó gerðu þeir það allir og sögðu allir nei, fyrir upp undir 20 þingmenn sem sátu í stjórnarmeirihluta í ríkisstjórn Geirs Haardes að taka afstöðu til málsins og þó gerðu þeir það og gerðu það reyndar á ýmsa vegu. Það var ekki auðvelt fyrir þá frekar en fyrir hæstaréttardómarana í málinu gegn Baldri Guðlaugssyni. Hæstaréttardómararnir höfðu það þó fram yfir að þeir höfðu leyfi til þess að hlaupa burtu. Þeir nýttu sér það leyfi og það hefðum við kannski átt að búa til hér líka eða landsdómur eða þeir sem bjuggu til landsdómslögin á sínum tíma árið 1963 og rifjuð hafa verið upp. En við stóðum frammi fyrir þessari ákvörðun sem alþingismenn og gátum ekkert hlaupið. Við tókum ákvörðun eins og okkur var skylt að gera og ber að virða það.

Hinn helmingurinn af svarinu er hér. Af hverju Geir, þegar allir eru með einhverjum hætti blandaðir í málið? Í 8. bindi þessarar ágætu rannsóknarskýrslu Alþingis, í kaflanum um siðferði og starfshætti er merkilegur kafli, ekki langur, um ábyrgð. Ábyrgð er ekki öll sú sama og eins þó að það sé mjög mikilvægt að hver maður taki á sig sína ábyrgð. Höfundar þessa kafla ræða, á bls. 227 og áfram, um þrjár tegundir eða gerðir af ábyrgð. Þær heita athafnaábyrgð, hlutverksábyrgð og félagsleg samábyrgð. Athafnaábyrgðin — nú get ég ekki lesið úr skýrslunni en þar er auðvitað rætt um sjálfa gerendurna, í þessu tilviki einkum ráðamenn bankanna, þá sem með athöfnum sínum eða athafnaleysi gerast sekir, sumir um afbrot aðrir um siðferðilega fordæmanlegan verknað, en auðvitað líka um stjórnmálamenn sem gátu afstýrt ákveðnum pörtum hrunsins eða mildað afleiðingar með öðrum athöfnum en þeir völdu sér eða með því að aðhafast.

Í öðru lagi tala höfundar skýrslunnar um hlutverksábyrgð. Spurningin um hlutverksábyrgð er ósköp einfaldlega sú hvort menn hafa brugðist hlutverki sínu að vera stjórnmálamaður, að vera embættismaður, að vera fjölmiðlamaður, að vera í hlutverki sem samfélagið hefur falið manni og bregðast þeim skyldum sem maður hafði í því hlutverki. Þegar kemur að ráðherra þá hefur hann alveg sérstakar skyldur og það er alveg sérstök leið sem lögbókin okkar gerir ráð fyrir að farin sé þegar menn telja að hann hafi ekki staðið við þær skyldur, að hann hafi með athöfnum eða vanrækslu gerst brotlegur við þær skyldur sem hlutverki hans fylgdu. Það er þarna sem landsdómur kemur við sögu. Það er þarna sem Geir Hilmar Haarde stendur vissulega einn uppi af ráðherrunum en ekki einn af öllum þeim sem ábyrgð hafa í þessu dæmi.

Þriðja tegundin af ábyrgð sem skýrsluhöfundar telja fram er félagsleg samábyrgð. Henni deilir almenningur á Íslandi, að minnsta kosti að hluta. Og okkur sem tilheyrum þeim hópi eða að minnsta kosti gerðum það 2007–2009 ber að skoða ábyrgð okkar í því ljósi. En hún er önnur, hún er auðvitað þess eðlis að menn hafi tekið þátt í því sem aðrir komu af stað, menn hafi gert sig ánægða, menn hafi ekki verið nógu gagnrýnir, menn hafi ekki skoðað kosningarrétt sinn til dæmis, ekki litið af alvöru á bæði þann rétt og þá skyldu sem þeir höfðu til þátttöku í samfélaginu. En þessi ábyrgð er með öðrum hætti en hlutverksábyrgðin og verknaðarábyrgðin og við verðum að kunna að greina þessar þrjár tegundir að.

Þetta vildi ég segja að lokum til að leitast við, þó að í litlu sé, að skýra þær tegundir af ábyrgð og lýsa því hvers vegna einn á að taka á sig sinn part af ábyrgðinni og annar sinn.