140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að ítreka það sem hefur komið fram fyrr í kvöld og í dag að saksóknari Alþingis hefur margsinnis staðfest að hún telji það ekki hafa áhrif á ákæruna að tveir fyrstu liðir hennar hafi verið felldir niður og segir að þeir hafi verið til fyllingar hinum ákæruliðunum. Ég vil bara ítreka að sú skoðun hefur verið staðfest.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég hef við þessa umræðu í dag sannfærst enn um hina klassísku skoðun á því að þing geti ekki komið aftur að máli sem það hefur sent til saksóknara. Þegar það hefur sem sagt kosið saksóknara og saksóknarnefnd geti þingið ekki komið að því aftur, hvorki hið sama þing né nýkosið þing. Ég hef náttúrlega heyrt og hlustað á skoðanir í nefndinni og við í nefndinni höfum hlustað á skoðanir hinna yngri lögfræðinga. En eftir að hafa skoðað þetta nánar og eftir að hafa hlustað á hvernig þetta gengur fyrir sig í þinginu í dag er ég enn sannfærðari um að hin klassíska skoðun eigi við í þessu efni þó að auðvitað — eða eins og ungu lögfræðingarnir segja: Það stendur hvergi — og þeir í sinni þröngu lagahyggju, ef ég má leyfa mér að nota það orð, eru á því að allt sem ekki er bannað sé leyft, og ég er ósammála því.

Í annan stað hafa engin þau efnisatriði komið fram sem leyfa það samkvæmt sakamálalögum sem eru til fyllingar landsdómslögum að ákæran verði afturkölluð. Þess vegna leggur meiri hluti nefndarinnar til að þingsályktunartillögunni verði vísað frá.

Því er haldið á lofti að ekki sé hægt að bera fram frávísunartillögu aftur vegna þess að frávísunartillaga hafi verið borin fram fyrir mánuði síðan og hún hafi verið felld. Nú er það svo að við athugun á þessu máli hafa þeir sem greiddu frávísun atkvæði þá og þeir sem eru í meiri hluta í nefndinni hafa enn sannfærst um að málið eigi ekki heima í þinginu. Ég spyr: Af hverju má þá ekki bera frávísunartillöguna fram aftur? Getur ekki verið að einhverjir hafi skipt um skoðun við þá ítarlegu skoðun nefndarinnar á málinu? Er það ekki einmitt það sem þetta mál gengur allt út á, virðulegi forseti, að einhver hafi skipt um skoðun? Er þá ekki eðlilegt að einhver hafi kannski skipt um skoðun (Gripið fram í: Kannski utanríkisráðherrann.) á því hvort ekki sé rétt að vísa þessari tillögu frá af því að hún eigi ekki heima í þinginu?

Auðvitað getur fólk skipt um skoðun. Alþingi getur skipt um skoðun, það er enginn vafi á því. En Alþingi getur ekki haft afskipti af málarekstri fyrir dómstólum og það er um það sem þessi tillaga er.