140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

úrvinnsla skuldamála heimilanna.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil bera upp við hæstv. forsætisráðherra spurningu sem snýr að skuldamálum heimila og úrvinnslu skuldamála, meðal annars í kjölfar dóms Hæstaréttar um gengislánamál.

Það er þá í fyrsta lagi hvort hæstv. forsætisráðherra telur ekki tilefni til þess nú að flýta málum sem varða uppgjör á gengislánamálum í dómskerfinu. Það liggur fyrir þingmál um efnið, hefur reyndar legið frammi frá árinu 2010 og mælt hefur verið fyrir því af hálfu sjálfstæðismanna, eða verður í dag. Ég vil inna forsætisráðherra eftir því hvort það sé ekki skoðun og stefna ríkisstjórnarinnar að dómskerfið verði notað eins og hægt er til að fá niðurstöðu í þessi mikilvægu mál sem allra fyrst.

Í annan stað er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvað ríkisstjórnin hyggst gera til að tryggja samræmda meðferð þessara mála, t.d. vegna innheimtu, uppboðsmála hjá sýslumannsembættum og annað þess háttar. Er eitthvað á döfinni frá ríkisstjórninni eða er þingið alfarið með það mál hjá sér í huga forsætisráðherra?

Loks er það spurningin sem snýr almennt að þessum málum og varðar verðtryggðu lánin og meðferð þeirra vegna þeirrar miklu verðbólgu sem hér hefur geisað undanfarin ár og er enn. Spurningin er þessi: Er þessi ráðherranefnd sem sagt hefur verið frá að fara að skila af sér og hyggst forsætisráðherra beita sér fyrir einhverju þverpólitísku samráði um raunhæfar aðgerðir til að koma til móts við þann stóra hóp sem situr að vissu leyti í súpunni í samanburði við aðra hópa sem ekki voru með verðtryggð lán?