140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

úrvinnsla skuldamála heimilanna.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta allt mjög eðlilegar spurningar hjá hv. þingmanni. Mörg af þeim málum sem þingmaðurinn nefnir brenna á fólki. Hv. þingmaður spurði um flýtimeðferð. Ég tel sjálfsagt að skoða það og gera þá lagabreytingar ef með þarf í því efni. Ég held að á öllum vígstöðvum sé verið að skoða þessi mál, bæði í þinginu, í efnahags- og viðskiptanefnd og í sérstökum ráðherrahópi á vegum ríkisstjórnarinnar. Þar er bæði verið að skoða hvað hægt er að gera til að greiða úr þeim óleystu spurningum sem upp komu með þessum dómi, og eru mjög margar, það er verið að reyna að leysa úr því. Og ég held að allir séu af vilja gerðir til að flýta þessum málum eins og hægt er fyrir dómskerfinu. Fram er komin sú hugmynd að lögmenn lánastofnana og lögmenn Hagsmunasamtaka heimilanna og allir sem að þessu koma skoði hvort hægt sé að fara leiðir sem flýta þessu máli í dómskerfinu þannig að við fáum niðurstöðu í þessi mál í eitt skipti fyrir öll.

Ég hef áhyggjur eins og flestir aðrir, og það var sérstaklega rætt í efnahags- og skattanefnd í gær, af innheimtuaðgerðum hjá þeim aðilum sem hugsanlega eiga rétt samkvæmt þessum dómi, eða munu eiga hann. Ég held að við hljótum að gera allt sem hægt er í því efni að koma í veg fyrir að viðhafðar séu harðar innheimtuaðgerðir meðan þessi mál eru öll óljós. Ég held að sýslumennirnir eigi að skoða hvort þeir geti ekki beitt sér fyrir því að greiða úr þannig að ekki sé verið með vörslusviptingar eða annað meðan allt er óljóst. Menn hafa sagt að þetta taki einhvern tíma, tvær, þrjár vikur, og það er miður.

Öðrum málum sem hv. þingmaður spyr um, og er þá að tala um almennar skuldaaðgerðir, verð ég að svara á eftir þar sem tíminn er runninn út núna.