140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

úrvinnsla skuldamála heimilanna.

[10:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég get ekki annað en fagnað því að hæstv. forsætisráðherra skuli taka vel í hugmyndina um að flýta málum í gegnum dómskerfið. En því miður er þetta bara allt of seint, þetta er tveimur árum of seint. Við komum fram með þá tillögu árið 2010. Það blasir við að ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið voru ekki búin undir þessa niðurstöðu Hæstaréttar vegna þess að menn eru að tína til svörin um áhrifin löngu eftir að dómurinn er fallinn. Málið hefur verið í dómskerfinu og það mátti búast við þeim möguleika að dómur mundi falla á þennan veg enda var kröfugerðin í málinu þannig.

Það sem blasir við okkur er að það er verið að vinna að málinu á hinum ýmsu vígstöðvum. Stjórnarandstaðan hefur kynnt sínar hugmyndir með fleiri en einum hætti. Það hafa líka komið fram hugmyndir frá formanni efnahags- og skattanefndar. Ríkisstjórnin segist vera að vinna að sínum hugmyndum. Það er einmitt vandi málsins, það er ekkert samræmt átak til að taka á vandanum. Það er engin stjórn á því hvert málið er að fara.

Maður spyr sig: Er formaður efnahags- og skattanefndar að tala fyrir hönd Samfylkingarinnar, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar mögulega? (Forseti hringir.) Er það svo að forsætisráðherra sé sammála því sem hann hefur þar komið fram með, t.d. um að skattleggja lífeyrissjóðina?

Ekki er verið að beita samræmdu átaki til að taka á þessu vandamáli (Forseti hringir.) og það gerir það að verkum að þjóðin skynjar ákveðna upplausn, að enginn hafi stjórn á málum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutímann.)