140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

staða ættleiðingarmála.

[10:45]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að eiga samtal við hæstv. innanríkisráðherra um stöðu ættleiðingarmála á Íslandi. Komið hafa út nokkrar skýrslur um þetta málefni. Í mars á síðasta ári kom út skýrsla sem unnin var af Rannsóknastofnun Ármanns Snævarrs og síðan önnur áfangaskýrsla í desember í fyrra sem gerð var af starfshópi ráðherra sem vinnur að hugsanlegri endurskoðun ættleiðingarlaga.

Staðan er þannig að 15–25 börn eru ættleidd á ári hverju og biðtíminn eftir slíku er langur. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því, eins og við ætlum að ræða á eftir, að hópur barna um allan heim býr við þröngan kost og jafnvel vannæringu. Ættleiðing er skilgreind sem verndarúrræði fyrir barn og alþjóðleg ættleiðing er leið til að tryggja barni, sem af einhverjum ástæðum hefur ekki fjölskyldu, tækifæri til að alast upp hjá fjölskyldu sem hefði tök á því að veita því góðan aðbúnað og uppeldi í samræmi við þarfir barnsins. Þarfir barns verða því að ráða úrslitum í ættleiðingarmálum en ekki þarfir og langanir væntanlegra kjörforeldra þó að að sjálfsögðu þurfi líka að taka mið af hagsmunum umsækjenda í faglegu ættleiðingarferli.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru næstu skrefin í þessu mikilvæga máli? Nú liggja fyrir skýrslur um þetta mál. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt grunn að því að talað verði við Rússland og reynt að semja við Rússa um að hugsanlega verði hægt að ættleiða börn þaðan. Hvað ætlum við að gera í því tilviki þegar börn með sérþarfir eru ættleidd? Verður sérstök leiðsögn og ráðgjöf hvað það varðar? Ætlum við að endurskoða löggjöfina? Hver er stefna hæstv. ráðherra í þeim efnum? Hvað ætlum við að gera í þessum mikilvæga málaflokki?