140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

staða ættleiðingarmála.

[10:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp. Það er mikilvægt og verðugt umræðuefni á Alþingi. Ég tek einnig undir megináherslurnar sem fram koma í máli hv. þingmanns, að sjálfsögðu eiga þarfir barnsins að vera í fyrirrúmi og leiðarljósið í öllum aðgerðum okkar.

En hverjar eru þær? spyr hv. þingmaður. Jú, ég skipaði nefnd undir forustu Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi alþingismanns, sem er að kortleggja þessi mál og undirbúa löggjöf. Ég geri ráð fyrir því að kynna nýtt frumvarp um ættleiðingarmál í haust en nú er unnið að því frumvarpi. Einnig er í bígerð nýr samningur við Íslenska ættleiðingu sem hefur milligöngu fyrir Íslands hönd um þessi mál. Það er mjög mikilvægt að við stöndum myndarlega þar að. Það er staðreynd að þessi málaflokkur sem aðrir hefur orðið fyrir niðurskurði á aðhaldstímum undangenginna ára og hefur ekki getað sinnt verkefnum sínum sem skyldi. Við þurfum að ráða þar bót á þegar sólin fer hækkandi á hinum efnahagslega himni.

Eins og hv. þingmaður gat um eru ýmis mál sérstaklega í athugun. Hv. þingmaður vék að samningum við Rússland. Við munum senda sérfræðinga til Rússlands til að kanna það. Við höfum átt gott samstarf við hæstv. utanríkisráðherra um það efni þannig að þessi mál eru mjög lifandi í vinnslu innan ráðuneytisins.