140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

byggðamál og aðildarumsókn að ESB.

[10:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í rýniskýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá því 20. september í fyrra um samningskaflann um byggðamál koma á bls. 8 fram áhyggjur framkvæmdastjórnarinnar af því að taki íslensk stjórnvöld ekki ákvarðanir um ráðuneyti og ráðuneytaskipan vegna byggðamála verði miklir annmarkar á aðildarviðræðunum um byggðamál. Ísland uppfyllir með öðrum orðum ekki opnunarskilyrðin.

Einnig eru látnar í ljós áhyggjur af því að verði aðild samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu verði of naumur tími til stefnu til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum breytingum vegna byggðamála. Haft er eftir Morten Jung, yfirmanni Íslandsmála á stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins í Brussel, á fundi á Akureyri í gær að stefnt sé að því að opna alla kafla á þessu ár, þá er væntanlega líka átt við kafla 22, um byggðamál. Hæstv. forsætisráðherra boðaði komu þingsályktunartillögu í febrúar eða mars um breytingar á ráðuneytaskipan í umræðunni um breytingar á stjórnarráðslögunum 25. janúar á þessu ári. Ekkert bólar á þeirri þingsályktunartillögu.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er von á slíkri þingsályktunartillögu? Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort sú tillaga tengist fyrrnefndum kröfum Evrópusambandsins um breytingar á stjórnsýslunni til að opna megi byggðakaflann. Að lokum vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé rétt sem spurnir hafa borist af, að þessi umrædda þingsályktunartillaga sé nú eða hafi verið til yfirlestrar og samþykkis í Brussel.