140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

byggðamál og aðildarumsókn að ESB.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Síðasta spurning er auðvitað fráleit. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvernig hv. þingmanni dettur það í hug að við sendum einhverja skýrslu um stöðuna í þessu máli sem er í stjórnarsáttmála okkar og hefur verið frá byrjun, til umsagnar í Brussel. Það er auðvitað alveg fráleitt og ég veit ekki hvernig hv. þingmanni dettur það í hug.

Varðandi byggðamálin og rýniskýrslurnar liggur fyrir tímasett áætlun sem er í samræmi við opnunarviðmiðin þannig að ég sé ekki að það séu nokkurt vandamál þar. Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um sem eru ráðuneytisbreytingarnar, eru þær á fullri ferð og haldnir eru reglulega fundir í ráðherranefnd sem fjallar sérstaklega um það mál. Við erum komin í síðari hlutann í þeirri skoðun okkar. Ég hafði vonast til þess að hægt væri öðrum hvorum megin við þessi mánaðamót að leggja fram þingsályktunartillögu sem leggja þarf fram vegna þessara breytinga. Ég á von á að það gerist nokkuð áður en þau tímamörk renna út sem við höfum til að leggja fram þingmál. Alla vega er málið á mjög góðu skriði innan stjórnsýslunnar og ég á ekki von á öðru en að góð sátt og samstaða náist um það mál í stjórnarflokkunum og að tillagan komi með eðlilegum hætti inn í þingið.