140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

tillögur til lausnar skuldavanda heimilanna.

[10:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um það sem fór fram í þingsal undir Störfum þingsins í gær og það sem hefur líka komið fram í Fréttablaðinu að undanförnu. Í gær í ræðustól var kallað eftir samvinnu, kallað eftir því að flokkar á þingi tækju höndum saman við að finna lausn á skuldavanda heimilanna. Nú hefur formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar, komið fram með ákveðna hugmynd um hvernig hægt væri að fjármagna niðurfærslu á lánum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hennar gagnvart þeirri hugmynd og öðrum hugmyndum sem fram hafa komið að undanförnu um að færa niður skuldir heimilanna. Þar má nefna þingsályktunartillögu sem Hreyfingin hefur lagt fram um björgunarsjóð og þar er líka útfærsla á því hvernig hægt væri að fjármagna það með skatti á fjármálafyrirtæki. Við framsóknarmenn lögðum líka fram tillögu fyrir jól um að hugsanlega væri hægt að nýta skattkerfið með framvirkum aðgerðum og lögðum til að stofnaður yrði sérstakur samstarfshópur á þingi til að skoða þá aðferðafræði.

Ég mundi gjarnan vilja heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi heyrt þessar raddir héðan úr þinginu sem kalla eftir því að við öxlum öll sameiginlega ábyrgð, vinnum saman, höfum samvinnuhugsjónina í fyrirrúmi og tryggjum það lýðræði að allir flokkar geti komið að þessari vinnu, tryggjum að allar raddir fái að heyrast. Þannig getum við vonandi lagt fram tillögur sem geta komið til móts við þann mikla vanda sem íslensk heimili glíma nú við.