140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Allt frá því að þetta mál kom fram á þingi 16. desember hafa andstæðingar þess, stuðningsmenn málsóknarinnar gegn Geir H. Haarde, reynt að finna tæknilegar leiðir til að komast hjá því að þingið fari í efnislega atkvæðagreiðslu um tillöguna. Við höfum séð ýmsar atrennur að því, m.a. í atkvæðagreiðslu 20. janúar þar sem við greiddum atkvæði um tillögu sem var að efni til alveg sambærileg þeirri sem við greiðum atkvæði um núna. Lögð var til frávísun á sömu forsendum og nú.

Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var fjallað efnislega um málið. Fjallað var um þau formsatriði sem þarna reyndi á. Fyrir nefndina komu fræðimenn, reyndir saksóknarar og komust að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun sem Alþingi tók 20. janúar var rétt. Þess vegna er álit meiri hlutans og tillaga í megnasta ósamræmi við það sem fram fór innan (Forseti hringir.) nefndarinnar um málið. Ég skora á þingmenn að fella þessa frávísunartillögu.