140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ef það ætti að verða viðtekin venja að Alþingi geti, á grundvelli pólitískra sviptivinda, hvenær sem því þóknast, gripið inn í gang réttarhalda fyrir dómstólum, værum við þar með að stíga örlagaríkt óheillaskref með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir réttaröryggi almennt í þessu landi. Efnistök þessa máls, þ.e. afstaðan til ákæruatriðanna sjálfra og hvort þau skuli leiða til sektar eða sýknu, eiga að verða fyrir landsdómi en ekki hér á Alþingi þar sem pólitískar væringar breyta og afvegaleiða mál eins og dæmin sanna. Þetta mál átti aldrei að koma hingað til þingsins en úr því að það er komið styð ég heils hugar þá rökréttu niðurstöðu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að því skuli hér með vísað frá.