140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Nokkrir þingmenn hafa haldið því fram hér að engar nýjar efnislegar ástæður réttlæti afturköllun þessa máls. Það er hins vegar ekki þingmanna að meta það fyrir alla aðra þingmenn, það verður hver og einn að gera upp við sjálfan sig. Þegar hefur komið fram að þingmenn sem áður töldu rétt að ákæra Geir H. Haarde telja það ekki rétt lengur af ýmsum ástæðum, telja að þær forsendur hafi brostið.

Það kann að vera að einhverjir hafi skipt um skoðun í hina áttina, að menn sem áður töldu Geir H. Haarde saklausan telji hann nú sekan, en það verður þá að koma í ljós. Um það verður atkvæðagreiðslan þá hér á eftir ef þessi frávísunartillaga verður felld. Það er það sem við erum að taka afstöðu til hér. Telja menn meiri líkur eða minni á sekt (Gripið fram í.) Geirs H. Haardes? Þar af leiðandi er ekki um annað að ræða en að fella þessa endurteknu tilraun til að vísa málinu frá og koma í veg fyrir að það fái eðlilega meðferð hér og menn fái að gefa upp afstöðu sína til málsins.