140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við skulum kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Þessi tillaga er tæknilegt bragð til að koma í veg fyrir að alþingismenn fái færi á því að taka efnislega afstöðu til þessa máls. Hún er lögð fram í einum tilgangi, þeim tilgangi að koma þeim hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum í skjól sem greiddu atkvæði gegn ákærum á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum úr tveimur stjórnmálaflokkum en treysta sér ekki til að fylgja eftir þeirri yfirlýstu sannfæringu sinni og taka þannig efnislega afstöðu til málsins að nýju.

Það hafa verið flutt mjög mikilvæg rök, efnisleg rök, gildar málefnalegar ástæður fyrir því að það beri að afturkalla þessa ákæru. Það er Alþingi sem fer með ákæruvaldið og það er þess vegna Alþingis og alþingismanna að hafa frumkvæði að afturköllun, ekki annarra. Þess vegna segi ég nei við þessari tillögu.