140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Alþingi hefur nú þegar tekið efnislega afstöðu um það hvort ákæra eigi Geir H. Haarde. Það er ekki verið að greiða atkvæði um það núna.

Ólafur Jóhannesson, sá þingmaður sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir og fyrrverandi lagaprófessor, varaði eindregið við inngripi Alþingis þegar búið væri að ákveða að kæra alþingismann eða ráðherra. Það sem gerðist var hins vegar að málið var tengt lögum um opinber sakamál. Þar er ákvæði um að hægt sé að vísa málinu frá séu fyrir því efnislegar forsendur. Þær forsendur eru ekki til staðar.

Þeir sem ákváðu að málið færi í þennan farveg á sínum tíma verða að bera ábyrgð á því jafnvel þó að þeir hafi skipt um skoðun. Ég ætla mér ekki að skera úr um sekt eða sýknu Geirs H. Haardes. Ég treysti landsdómi fyrir því og segi þess vegna já.