140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[11:54]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja hér umræðu í þessu stóra og mikilvæga máli. Það er augljóst mál að Alþingi þarf að ræða það frekar í framhaldinu og mun fá tækifæri til þess, meðal annars þegar viðamikil skýrsla kemur frá Seðlabankanum innan tíðar, sem er næsta skref í undirbúningi að stefnumótun á þessu sviði. Næst á eftir því að ná hér lágmarksstöðugleika og vinna þær björgunaraðgerðir sem voru óumflýjanlegar eftir hrunið er alveg ljóst að þetta svið er brýnt og þegar hefur verið hafinn ýmiss konar undirbúningur að því, samanber skýrslu Seðlabankans frá því í desember 2010, Peningastefna eftir höft. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið fékk síðan í framhaldinu álit þriggja sérfræðinga, staðið var fyrir málstofu um þetta mál og forveri minn í því embætti var jafnframt atorkusamur við að funda með aðilum vinnumarkaðarins og fleirum og koma þessum málum á dagskrá og ræða þau. Hér innan þingsins varð samkomulag um að setja nefnd af stað, aðra af tveimur, sem fjalla skyldi um stefnumótun á sviði gjaldmiðlamála og er hún að hefja störf.

Varðandi aðildarviðræður er sérstakur starfshópur eða viðræðunefnd sem fer með það mál og tengist það sérstaklega 17. kaflanum í viðræðunum sem seðlabankastjóri fer fyrir. Á þeim vettvangi hafa að sjálfsögðu verið haldnir margir fundir og aðilar vinnumarkaðarins og fleiri fylgjast með framvindu þeirra mála. Þegar samningsafstaða verður endanleg, en hún er í smíðum einmitt sem við tölum hér, þá fer hún að sjálfsögðu sinn farveg í gegnum ráðherranefnd um Evrópumál og til utanríkismálanefndar Alþingis.

Það er ljóst að gjaldeyrishöftin, tilvist þeirra og áætlun um afnám þeirra flækir nokkuð umræðuna um framtíðarfyrirkomulagið. Það þarf að huga að hvoru tveggja, hvernig verður sú áætlun framkvæmd með farsælum hætti án þess að stöðugleiki raskist og hvaða regluverk tekur við? Hvernig verður fjármálakerfið búið undir að takast á við þær breytingar sem því fylgja o.s.frv.? Þessi mál eru sömuleiðis á dagskrá í nágrannalöndum okkar og alveg eins í löndum sem eru hluti af stærri myntsvæðum, menn þurfa auðvitað að ræða sinn innri stöðugleika á innri fjármála- og peningamálastjórnun. Það er misskilningur, sem stundum er haldið fram, að þau mál hverfi öll eða leysist með aðild að stærra myntsvæði. Fjármagnsflutningar til og frá landinu og hvikult fjárfestingarfé, ávöxtunarfé eða áhættufé, getur að sjálfsögðu tekið til fótanna í stórri alþjóðlegri mynt út úr hagkerfi rétt eins og það getur í sjálfstæðum gjaldmiðli.

Varðandi stefnumótun til framtíðar hef ég sagt það áður, og hef litlu við það að bæta, að í mínum huga kemur ekki annað til greina en að Íslendingar móti áherslur sínar og undirbúi framtíð sína þannig að sjálfstæð króna eða sjálfstæður gjaldmiðill Íslands verði annar eða einn af meginvalkostunum, sviðsmyndunum. Annað væri ábyrgðarlaust og það geta engin stjórnvöld, í ljósi óvissunnar um hver niðurstaðan kann að verða í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, staðið þannig að málum að menn setji allt sitt traust á það og þjóðin hafni síðan aðild og þá hafi menn engin svör við því hvað við tekur. Þannig verður ekki að því staðið á meðan ég hef einhver áhrif á ferlið.

Hitt er ljóst að aðildarviðræðunum tengjast þá áformin um að taka upp evru og ganga inn í ERM II að því tilskildu að/og þegar við uppfyllum svonefnd Maastricht-skilyrði. Að þeim skilyrðum eða öðrum sambærilegum þurfum við að stefna hvort sem er. Algjörlega óháð því hvort við ættum síðar leið inn í Evrópusambandið eigum við að ná verðbólgu niður, ná ásættanlegu vaxtastigi, ná halla hins opinbera niður í núll eða helst í afgang, hvað þá þennan 3% halla sem Maastricht-skilyrðin leyfa, ná skuldum hins opinbera niður fyrir 60% eða þar um bil og stefna að ásættanlegum markmiðum í efnahagsstjórnun almennt.

Umræða um þessi mál er öll á fleygiferð, ekki bara á Íslandi heldur víðar. Ég bendi á viðskiptablað Morgunblaðsins í dag þar sem fjallað er um svonefnd NVL-markmið sem eru auðvitað til marks um að víðar en hér eru menn að átta sig á því að þröngt skilgreind verðbólgumarkmið ein munu ekki duga. Umræðan á Íslandi gengur þegar út á það hvers konar viðbótarstýritæki og markmið menn þurfa að hafa. Sumir hafa kallað það verðbólgumarkmið plús með beitingu þjóðaröryggistækja og miklu nánari samtvinnun peningamálastefnu og ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum.

Ég leyfi mér að halda því til haga, þrátt fyrir það sem málshefjandi sagði um það mál, að á margan hátt hefur krónan auðveldað aðlögun íslensks efnahagslífs og hvað sem framtíðinni líður held ég að það hafi að mörgu leyti reynst okkur vel að hafa það tæki og önnur í okkar eigin höndum. Það er ekki hægt að kenna krónunni (Forseti hringir.) um hagstjórnarmistök og óstöðugleika fortíðarinnar. Það er allt of einföld, mér liggur við að segja ódýr, skýring að segja að það sé bara við krónuna að sakast að mönnum hafi verið mislagðar hendur á Íslandi að stjórna sínum efnahags- og gjaldeyrismálum, (Forseti hringir.) en það hefur mönnum vissulega verið. Að því leyti er ég sammála málshefjanda að við getum ekki boðið upp á óbreytta framtíð (Forseti hringir.) með þeim sveiflum og þeim óstöðugleika sem einkenndi fortíðina, við verðum að ná þarna fram (Forseti hringir.) ásættanlegri stefnu sem dugar okkur til framtíðar.