140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það liggur fyrir að móta þarf stefnu um framtíðarfyrirkomulag í gjaldeyrismálum og er sú vinna þegar hafin. Verið er að leggja lokahönd á skipun nefndar með fulltrúum allra stjórnarflokka til að fjalla um þetta málefni og Seðlabankinn mun innan tíðar birta viðamikla skýrslu um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og peningamálum.

Núverandi gjaldeyrishöft hafa haft áhrif á framtíðarfyrirkomulag í gjaldeyrismálum auk þess sem mikilvægt er að hafa í huga að umræðan um gjaldeyrismál og fyrirkomulag í peningamálum almennt er nánast ein og sama umræðan. Fyrir liggur að miðað við núgildandi lagaheimildir er stefnt að því að afnámi gjaldeyrishafta verði lokið fyrir árslok 2013 og áform stjórnvalda taka mið af því. Jafnframt liggur fyrir að unnið er að umfangsmiklum breytingum á regluverki fjármálakerfisins til að hægt verði að tryggja fjármálalegan stöðugleika þegar núverandi gjaldeyrishöft verða afnumin og starfsemi fjármálafyrirtækja kemst í eðlilegt horf á nýjan leik.

Varðandi stefnu stjórnvalda í gjaldeyrismálum til framtíðar liggur alveg fyrir að fyrirkomulag með sjálfstæðri krónu verður einn af meginvalkostum okkar. Það segir sig sjálft þar sem ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort verður af aðild að ESB eða ekki. Vissulega verður að skoða möguleika á öðrum gjaldmiðli þó að við stöndum utan ESB, sem ég ætla rétt að vona. Varðandi stöðu krónunnar að öðru leyti er mikilvægt að halda því til haga að hún hefur á margan hátt auðveldað efnahagslega endurreisn landsins.

Í minni fjölskyldu er leikinn samkvæmisleikur sem heitir Krónan gengur, krónan gengur, missa hana ekki má. Og ég held að við verðum enn um sinn sem þjóð að hafa krónu sem gjaldmiðil hvað sem framtíðin ber í skauti sér.