140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:17]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum framtíðina og þau kjör sem við ætlum að bjóða íslenskum heimilum og fyrirtækjum í gengis- og efnahagsmálum í framtíðinni.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um vandann á evrusvæðinu, sem eðlilegt er því að hann hefur verið mikill og sér sannarlega ekki fyrir endann á því ferli. Hins vegar er mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga að sá vandi byggist fyrst og fremst á agaleysi í ríkisfjármálum einstakra ríkja eins og Grikklands, Ítalíu og annarra ríkja í Suður-Evrópu og enginn vafi er á því að staða þessara ríkja væri snöggtum verri og í raun óbærileg ef þau nytu ekki þess þéttriðna samstarfs sem felst í efnahagssamstarfi evruríkjanna með bakstuðningi Seðlabanka Evrópu.

Í því liggja mikilvæg skilaboð fyrir fámenna þjóð eins og okkur Íslendinga sem byggjum efnahagslega afkomu okkar fyrst og fremst á milliríkjaverslun og hagstæðum viðskiptakjörum fyrir hefðbundnar íslenskar útflutningsafurðir svo sem fisk og landbúnaðarafurðir. Mikilvæg tækifæri felast í aðild að Evrópusambandinu. Eitt af því sem stendur okkur mest fyrir þrifum í atvinnumálum okkar um þessar mundir er skortur á erlendri fjárfestingu. Reynsla nýrra aðildarríkja Evrópusambandsins á liðnum árum er sú að erlend fjárfesting í þessum ríkjum hefur aukist verulega við inngöngu í sambandið. Við þurfum líka að geta boðið heiminum og fyrirtækjum upp á mannsæmandi kjör hvað varðar efnahagsleg skilyrði, hvað varðar vaxtastig, verðbólgu o.s.frv. Annað og heilbrigðara umhverfi bíður okkar í því samstarfi, sem gengur út á einn öflugasta gjaldmiðil í heimi, en í áframhaldandi samneyti við íslensku krónuna sem getur ekki lifað af á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum nema með utanaðkomandi hjálpartækjum eins og verðtryggingu og gjaldeyrishöftum sem hafa valdið þungum búsifjum fyrir fólk og fyrirtæki í þessu landi árum saman.

Við byggjum afkomu okkar á alþjóðlegu samstarfi. Við eigum að komast inn í stöðugra gjaldmiðilsumhverfi og það gerum við best með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru.