140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

stefna í gjaldmiðilsmálum.

[12:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu. Meiri víðsýni hefur einkennt hluta þeirra ræðna sem haldnar hafa verið í þessari umræðu en oft áður. Ég tek undir með þeim sem sagt hafa að krónan hafi kosti og galla, það hafa allir gjaldmiðlar kosti og galla og það liggur alveg ljóst fyrir að við munum vera með krónuna næstu árin. Hvað við eigum að gera til framtíðar er umræða sem þarf nauðsynlega að taka. Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni málshefjanda að ekki hefur nægilega miklum tíma verið varið í að ræða það stóra mál, þ.e. hvað við þurfum að gera til þess að halda krónunni hér til frambúðar, eins og meðal annars hefur komið fram í máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og eins varðandi gjaldmiðilsmálin til framtíðar, hvaða gjaldmiðil við eigum að skoða og hvernig.

Af hverju fer sú umræða ekki fram? Maður skynjar viljann, margir hér eru farnir að tala um þessi mál á miklu víðari grunni en verið hefur. En umræðan fer ekki fram vegna þess að allt of mikið er einblínt á eina lausn í þessum efnum og eingöngu er horft til Evrópusambandsaðildar og upptöku evru í því sambandi.

Í kringum hrunið var mikil gerjun í umræðunni í íslensku samfélagi um þessi mál. Skrifaður var fjöldinn allur af greinum, hingað komu fræðimenn sem fjölluðu um hvað við Íslendingar þyrftum að gera til að halda krónunni og eins var fjallað um möguleika á því að taka einhliða upp aðra gjaldmiðla. Við þurfum að fara í þá umræðu af miklu meiri víðsýni en gert hefur verið og ég fagna því að það vottar fyrir þeirri auknu víðsýni í umræðunni í dag. Við þurfum að komast út úr þeirri þröngsýni sem við höfum verið í.

Ég bendi til að mynda á að núna á laugardaginn er ráðstefna sem framsóknarmenn halda um möguleikann á einhliða upptöku kanadadollars og við þurfum að taka slíka umræðu á víðari grunni og í miklu ríkari mæli á þessu ári.