140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Baráttan fyrir mannsæmandi lífi, baráttan fyrir brauði og vatni er því miður daglegt viðfangsefni milljóna manna um allan heim. Í amstri hversdagsins leiðum við sem búum við velmegun sjaldan hugann að þeirri skelfilegu neyð sem milljónir búa við. Ný skýrsla Barnaheilla, Save the Children, sem ber nafnið A Life Free from Hunger, varpar ljósi á þennan vanda með sérstakri áherslu á vannæringu barna. Í skýrslunni kemur fram að hækkandi matvælaverð og vannæring geti staðið í vegi fyrir því að frekari árangur náist í baráttunni við barnadauða í heiminum.

Þar kemur sömuleiðis fram að þótt vannæring sé undirliggjandi ástæða þriðjungs alls barnadauða í heiminum hefur henni ekki verið veitt sama athygli eða fengið jafnmikið fjármagn og aðrar ástæður barnadauða, svo sem alnæmi eða malaría. Þetta þýðir að á meðan tekist hefur að draga úr barnadauða af völdum malaríu um þriðjung frá árinu 2000 hafa tölur um vannæringu barna í Afríku einungis lækkað um innan við 0,3%. Þetta ástand er heiminum dýrt, bæði út frá mannúðarsjónarmiðum og fjárhagslegum. Barnaheill telur kostnað hins alþjóðlega hagkerfis vegna vannæringar barna einvörðungu á árinu 2010 vera nær 121 milljarði bandaríkjadala.

Utanríkismálanefnd Alþingis fjallaði um skýrslu Barnaheilla nú nýverið og fékk til sín gesti frá þeim samtökum, frá Þróunarsamvinnustofnun og frá utanríkisráðuneytinu. Þar kom meðal annars fram að mikill árangur hefur náðst í að fylgja eftir þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um að lækka barnadauða. Sú hætta er yfirvofandi að þeim árangri verði stefnt í voða ef við horfum fram hjá vannæringu. Vannæring kemur ekki fram sem dánarorsök á dánarvottorðum barna heldur sjúkdómurinn sem af vannæringu leiðir. Fram hefur komið að nær helmingur barna á Indlandi eru vannærð og vanþroska eða um 65 milljónir barna og það í einu af ört vaxandi hagkerfum heims. Þar er ástandið þó ekki verst.

Meginmarkmið Barnaheilla er að vekja athygli stjórnvalda og almennings í heiminum á vannæringu því að án aðgerða spáir Barnaheill því að 450 milljónir barna muni þjást af vannæringu á næstu 15 árum. Samtökin benda á að lausnir séu til á þessum brýna vanda, þær séu einfaldar, ódýrar og markvissar. Samtökin Barnaheill hafa hvatt þjóðarleiðtoga til að grípa til slíkra einfaldra aðgerða til að takast á við vannæringu og benda í skýrslu sinni á að á hverri klukkustund dagsins deyja 300 börn af völdum vannæringar, oft einfaldlega af því að þau hafa ekki aðgang að grunnfæði sem er næringarríkt og við lítum á sem sjálfsagðan hlut í ríkari hlutum heimsins.

Meðal þeirra tiltölulega einföldu aðgerða sem Barnaheill, Save the Children, hvetja þjóðarleiðtoga til að grípa til til að takast á við vannæringu er að auka sýnileika vandans með því að setja sér markmið til að draga úr vanþroska barna, að auka fjárframlög til beinna næringaraðgerða, svo sem brjóstagjafar og efnabætingar matvæla, sem geta bjargað milljónum lífa; fjárfesta í félagslegum aðgerðum sem virka til jöfnuðar og ná til þeirra fjölskyldna sem berskjaldaðastar eru; styðja minni bændur til að framleiða næringarríkari afurðir; nýta fundi G8 og G20 ríkjanna til að örva pólitíska forustu í málefnum hungurs og koma á raunhæfri aðgerðaáætlun í baráttunni við vannæringu.

Frú forseti. Eins og til að bæta gráu ofan á svart kom út nú í vikunni enn ein skýrslan, nú frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sem beinir kastljósinu að bitrum veruleika fátæktar barna í fátækrahverfum en í skýrslunni kemur fram að hundruð milljóna barna í borgum og bæjum um víða veröld hafa engan aðgang að mikilvægri grunnþjónustu á borð við skóla, heilsugæslustöðvar og aðra þjónustu sem vissulega getur verið til staðar en börn fá ekki notið sökum fátæktar og ójöfnuðar.

Frú forseti. Öll börn þurfa hreint vatn, heilsugæslu, menntun og öryggi — og þau þurfa að fá að vera börn. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja íslensk stjórnvöld, þing og þjóð, til að horfast í augu við þessa neyð og einsetja sér að leggja sitt af mörkum til að takast á við vannæringu barna og barnadauða. Ég vil enn fremur inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hver afstaða íslenskra stjórnvalda sé til þeirra skelfilegu aðstæðna sem milljónir barna búa við, þeirrar misskiptingar og ójöfnuðar, og hvernig við Íslendingar, sem þrátt fyrir allt erum rík þjóð, getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til að vinna bug á hungri og örbirgð sem milljónir barna um allan heim búa við.