140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu sem rædd hefur verið í utanríkismálanefnd og samtökin Barnaheill hafa vakið athygli á. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Barnaheillum kærlega fyrir að vekja athygli á þessari mikilvægu skýrslu. Eins og hér hefur komið fram eru það hörmulegar upplýsingar sem koma fram í skýrslunni, upplýsingar sem við vitum um og vissum af en það er aldrei nógu brýnt að athygli okkar sé vakin á því.

Þá er rétt að við spyrjum: Hvað getum við gert? Hvað erum við að gera til að leggja þessu málefni lið? Við vitum að við munum aldrei ein og sér geta leyst þetta vandamál en við getum lagt okkar af mörkum.

Þá skiptir miklu máli það sem rætt hefur verið mikið um í tengslum við þróunaraðstoð hér á landi sem og annars staðar: Hvernig nýtast fjármunirnir best? Ég verð að taka undir með hæstv. utanríkisráðherra þegar hann nefndi hér áðan að mikilvægt væri að veita þeim aðstoð í tengslum við sjávarútvegsmál og landbúnað, að hjálpa fólki til sjálfshjálpar til að leysa vandamálið til lengdar. Til að komast að rótum vandans er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft.

Við þurfum, Íslendingar, að athuga og fara vel yfir: Hvernig nýtast þeir takmörkuðu fjármunir sem við höfum best? Er best að við leggjum þá inn í alþjóðastofnanir, hjálparsamtök? Er kostnaður við umsýslu þar of mikill? Nýtast þeir betur ef við förum í einstök verkefni, einbeitum kröftum okkar þar að einstökum verkefnum þar sem við getum hjálpað einstaklingum til að hjálpa sér sjálfir? (Forseti hringir.) Þetta er þurfum við að ræða áfram og finna hvar við getum komið best að gagni.