140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

skýrsla Barnaheilla um vannæringu barna í heiminum.

[12:44]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil gera orð Justins Forsyths, framkvæmdastjóra Barnaheilla, Save the Children, að mínum: „Ímyndum okkur að við gætum ekki gefið börnunum okkar mat sem hjálpar þeim að vaxa og dafna“ — ég skora á okkur að ímynda okkur það, því að ef við gerum það ekki skiljum við ekki vandamálið.

Matvælaverð mun aðeins hækka í heiminum. Það tengist bæði aukinni fólksfjölgun og yfirvofandi olíukreppu, við erum komin fram yfir hápunkt olíuframleiðslu í heiminum. Héðan í frá mun olíuframleiðsla verða minni, og ef við leysum ekki orkumálin einhvern veginn mun matvælaverð halda áfram að hækka.

Þetta þarf ekki að vera svona, þetta er ákvörðun. Ekki foreldranna sem eiga ekki fyrir mat heldur heimsbyggðarinnar. Við berum öll ábyrgð. Það er okkar að takast á við misskiptinguna í heiminum.

Við Íslendingar lentum í ógöngum, steyttum á skeri, við erum skuldsett þjóð en við erum samt rík. Við eigum auðlindir og ekki síst mannauð. Þótt okkur blöskri oft misskiptingin hér á landi er hún ekki sambærileg við stöðuna í heiminum. Það er okkar að hjálpa bræðrum og systrum hvar sem þau eru stödd. Þetta er öðru fremur spurning um forgangsröðun. Við berum ábyrgð og við getum haft áhrif.