140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 161/2011 um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn.

570. mál
[13:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hér leita ég heimildar Alþingis til þess að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011. Hún fjallar um breytingu á XXII. viðauka við EES-samninginn um félagarétt, og jafnframt að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sem merkt er 2010/485/ESB. Hún fjallar um hæfi lögbærra yfirvalda í Ástralíu og Bandaríkjunum í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2006/43/EB hvað varðar eftirlit með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Markmiðið er að greiða fyrir samvinnu lögbærra yfirvalda aðildarríkjanna og lögbærra yfirvalda í tilteknum þriðju ríkjum, þ.e. Ástralíu og Bandaríkjunum, hvað varðar eftirlit, gæðaeftirlit og rannsóknir á sviði endurskoðunar. Þessi ákvörðun heimilar að lögbær yfirvöld aðildarríkjanna geti afhent vinnuskjöl við endurskoðun eða önnur skjöl í vörslu endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis til lögbærra yfirvalda þriðju ríkja.

Breytingin kallar á breytingu á lögum nr. 79/2008 sem fjalla um endurskoðendur. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á þessu þingi til að innleiða ákvæði þessarar breytingar. Lagabreytingarnar munu sem betur fer hafa í för með sér óverulegan kostnað, hann stafar einungis af milligöngu sérstaks endurskoðendaráðs sem setja þarf upp við afhendingu skjalanna. Ekki er ekki gert ráð fyrir því að breytingarnar hafi neinar stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi né heldur efnahagslegar fyrir einkaaðila.

Herra forseti. Þar með hef ég lokið að mæla fyrir þessu máli og legg til að þegar umræðu er lokið verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.