140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[13:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þann fróðleik sem hann flutti okkur hv. þingmönnum varðandi það mál sem við ræðum hér. Eins og ég skil málið sem hann mælti fyrir, sem gengur nú væntanlega til hv. utanríkismálanefndar þingsins, er verið að bæta réttindi farþega í sjóflutningum.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því um hvaða réttarbætur er að ræða. Er nauðsynlegt að innleiða þær með þessum hætti? Höfum við einhver dæmi um að gengið hafi verið gegn hagsmunum og réttindum starfsmanna eða farþega á þessum skipum? Mér finnst mikilvægt að ræða það hér og ég fagna því, ef ég skil málið rétt, að við séum að auka réttindi starfsfólks og þeirra farþega sem nýta sér farþegasamgöngur á sjó.

Ég velti öðru fyrir mér, hvort hæstv. ráðherra hafi lagt mat á hvort þetta sé íþyngjandi gagnvart útgerðum. Munu reglurnar hafa í för með sér einhver íþyngjandi áhrif hvað varðar þessa starfsemi? Við, þ.e. ég og hæstv. ráðherra og reyndar fleiri hv. þingmenn, höfum rætt um samgöngur á sjó og þá kannski sérstaklega eflingu strandsiglinga hringinn í kringum landið. Getur verið að við séum með þessum hætti að festa í reglur eitthvað sem íþyngir þeirri starfsemi?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í stöðuna á strandsiglingunum almennt, vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt mál, eins og ég nefndi hér áðan, sem við hæstv. ráðherra höfum rætt á undangengnum árum. Ákveðnar vörur þarf ekki að flytja með þungum flutningabílum á milli landshluta heldur gæti strandsiglingakerfi létt verulega álaginu af slíkum flutningum. Þar með gæti það lækkað flutningskostnað sem er gríðarlega hár, eins og við þekkjum vítt og breitt um landið, og gæti sparað atvinnulífi og heimilum á viðkomandi svæðum töluverða peninga.

Ég velti því fyrir mér í því samhengi, af því að við ræðum starfsemi sem tekur til hafsvæðisins hringinn í kringum landið og jafnvel til millilandasiglinga, hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvað hugsað um áhrif þessara reglna á þær fyrirhuguðu bætur. Við hljótum að vera sammála um að við viljum auka vægi flutninga á sjó vegna þess að flutningar á landi hafa haft þær afleiðingar að slit á vegakerfinu hefur margfaldast í kjölfar aukinna landflutninga. Við höfum líka horft upp á að slysatíðni hefur aukist með aukinni umferð og er oft varasamt að mæta stórum flutningabílum á þjóðvegum landsins, sérstaklega í miklu votveðri.

Þetta er það sem mig langaði að inna hæstv. ráðherra eftir og ég held að það væri ágætt fyrir þá hv. þingmenn sem eru í salnum að heyra svör hæstv. ráðherra við spurningu minni vegna þess að ég tel að hæstv. ráðherra hafi tæpt hér á mjög mikilvægu máli sem snertir ákveðið grundvallarmál. Mér finnst rétt að við ræðum það örlítið í þessu samhengi vegna þess að við höfum velt því mjög fyrir okkur á Alþingi á undangengnum árum hvernig við getum eflt flutninga á sjó og strandsiglingar. Um leið getum við velt því fyrir okkur hvort þær reglur sem hæstv. utanríkisráðherra mælir hér fyrir um geti mögulega haft einhver áhrif á þá mikilvægu starfsemi.