140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[13:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör hans og eins og kom fram í þeim er um að ræða gríðarlega mikilvægt mál fyrir Ísland allt, ekki síst landsbyggðina. Þess vegna er það að minnsta kosti einnar messu virði að ræða það í ræðustól Alþingis þegar hæstv. ráðherra leggur þetta mál hér fram.

Varðandi eflingu strandsiglinga þá nefndi hæstv. ráðherra þá opnun sem mun væntanlega eiga sér stað á næstu árum eða áratugum í norðurslóðasiglingum. Ég velti einu fyrir mér í því samhengi en það er umskipunarhöfn, til að mynda á norðausturhorni landsins, sem er gríðarlega mikið framfaramál og þar þurfum við Íslendingar að sýna framsýni. Mér finnst að ekki hafi verið nægjanlegur slagkraftur í stefnu ríkisstjórnarinnar um þá mikilvægu uppbyggingu og ég á þá við viðræður sem við höfum átt hér við innanríkisráðherra. Ég velti því fyrir mér í hvaða stöðu hæstv. utanríkisráðherra telji að norðurslóðasiglingar séu og hvort hann telji ekki mikilvægt að við gyrðum okkur í brók og náum ákveðinni forustu landa sem vilja koma slíkri aðstöðu fyrir. Þar er um að ræða gríðarlegt byggðamál fyrir norðausturhorn landsins, en líka stórmál fyrir Ísland allt, vegna þess að á næstu árum og áratugum munu gríðarleg umsvif fylgja slíkri umskipunarhöfn. Það væri áhugavert að heyra skoðanir hæstv. ráðherra á því.