140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[13:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og það áhugaverða málefni sem hann lauk máli sínu á og snertir norðurslóðasiglingar og þá framtíð sem þar er í vændum. Mér heyrist af svari hæstv. ráðherra að ágætt væri að við á þingi tækjum umræðu um þessi mál, þ.e. að við vitum hvert við stefnum í þeim málum.

Ég vil síðan þakka hæstv. ráðherra fyrir þann áhuga og stuðning sem hann sýnir málflutningi okkar framsóknarmanna um strandsiglingar og við erum í sama flokki þegar kemur að því að efla þær í kringum landið. Vonandi getum við tekið höndum saman um að koma þeim málum áfram, því eins og við hæstv. ráðherra höfum bent á báðir er slit og slysahætta á þjóðvegakerfinu mun meiri eftir að landflutningar jukust til mikilla muna.

Ég vil að lokum þakka hæstv. ráðherra fyrir orð hans um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Nýjustu fréttir eru þær að sá skóli er í miklum blóma. Á annað hundrað nemendur stunda þar nám. Þar er búið að huga að mannréttindum ungra einstaklinga við utanverðan Eyjafjörð sem áður þurftu að flytjast að heiman, jafnvel 15, 16 ára gömul, til að fá uppfylla þau grundvallarmannréttindi að geta stundað framhaldsskólanám við sitt hæfi. Við búum við allt annan veruleika í dag en fyrir 30–40 árum. Nú eru börn börn fram að 18 ára aldri og þess vegna á það að heyra undir sjálfsögð mannréttindi að fólk geti stundað framhaldsskólanám að minnsta kosti til 18 ára aldurs í heimabyggð sinni. Þessi skóli er dæmi um mál þar sem við náðum árangri í sameiningu. Vonandi mun okkur auðnast að ná fleiri slíkum málum hér í gegn.

Ég sé að hæstv. ráðherra er að rusla inn í utanríkismálanefnd þingsins mörgum málum. Ég hefði gjarnan viljað sjá atvinnuveganefnd þingsins (Forseti hringir.) fá slík mál fyrir nefndavikuna, ekki veitir af, því við þurfum að fara að skapa atvinnu í landinu.